Hvernig komið var í veg fyrir stórslys í Tjernobyl

Kjarnorkuverið í Tjernobyl.
Kjarnorkuverið í Tjernobyl. AFP

Kjarn­orku­verið í Tjerno­byl er nú aftur í höndum Úkraínumanna eftir að rússneskar hersveitir yfirtóku það á fyrsta degi innrásarinnar í Úkraínu 24. febrúar. Meðal þess sem starfsmenn kjarnorkuversins þurftu að gera til að viðhalda verinu var að stela eldsneyti frá Rússum.

BBC greinir frá því að rússneskar hersveitir hafi tekið 170 úkraínska hermenn til fanga og látið þá dúsa í kjallara á meðan leitað var að sprengjum og vopnum á svæðinu.

Vélstjórar, yfirmenn og aðrir lykilstarfsmenn fengu að starfa áfram. Á næstu tveimur dögum kom teymi frá rússnesku kjarnorkustofnuninni, Rosatom, til Tjernobyl.

Mikil hætta á að kjarnorka yrði leyst úr læðingi

Starfsfólk Tjernobyl var umhugað að halda stjórn til þess að viðhalda kjarnorkuverinu. Það er ekki í notkun en geislavirkur úrgangur er geymdur þar.

Milljarðar bandaríkjadala hafa farið í hreinsun við kjarnorkuverið og í að útiloka útbreiðslu geislavirkni frá kjarnorkuslysinu árið 1986. Ef viðhaldi er ekki sinnt er mikil hætta á að kjarnorka leysist úr læðingi.

Oleksandr Lobada, starfsmaður Tjernobyl, sagði í viðtali við BBC að rússnesku sveitirnar hafi viljað vita allt um núverandi starfsemi í kjarnorkuverinu. „Ég var hræddur af því að spurningarnar voru viðstöðulausar og stundum yfirgangssamar.“

„Við þurftum stöðugt að vera semja við þá og reyna að móðga þá ekki svo þeir myndu leyfa starfsfólkinu okkar að hafa stjórn,“ sagði verkfræðingurinn Valeriy Semonov í viðtalinu. 

Stal eldsneyti frá Rússum

Þegar rafmagnið var tekið af kjarnorkuverinu í þrjá daga reyndi Semonov að finna eldsneyti til þess að halda rafalnum gangandi. Þetta gerði hann meðal annars með því að stela því frá Rússum. 

„Ef við hefðum ekki rafaflið hefðu afleiðingarnar geta orðið skelfilegar. Geislavirkt efni hefði getað losnað úr læðingi. Umfangið, þú getur rétt ímyndað þér. Ég var ekki hræddur um líf mitt. Ég var hræddur um hvað myndi gerast ef ég viðhélt ekki kjarnorkuverinu. Ég var hræddur um að ástandið gæti skapað harmleik fyrir mannkynið,“ sagði Lobad.

Dvöldu á geislavirkasta stað í heiminum

Fyrir aftan kjarnorkuverið er svæði sem kallast rauði skógurinn. Svæðið er eitt það geislavirkasta í heiminum.

Gervihnattamynd af svæðinu.
Gervihnattamynd af svæðinu. AFP

Myndatökur dróna úkraínska hersins sína að rússneskir hermenn hafa grafið skotgrafir og jafnvel dvalið þar. 

Þetta sýni skýrt hversu lítið hermennirnir hafi vitað um kjarnorkuöryggi. Kjarnorkustofnun Úkraínu, Energoatom, telur að rússnesku hermennirnir hafi orðið fyrir „umtalsverðum skömmtum“ af geislavirkni. 

Tóku 169 úkraínska hermenn

Er Rússar yfirgáfu Tjernobyl tóku þeir 169 úkraínska hermenn með sér sem gísla. 

„Okkur tókst að halda kjarnorkuverinu öruggu. En það er sorglegt að þeir skildu taka með sér 169 úkraínska hermenn,“ sagði Semonov.

Óvíst er hvar hermennirnir eru staddir, en starfsfólk Tjernobyl telur líklegt að þeir séu í Rússlandi. 

169 úkraínskir hermenn voru teknir sem gísl.
169 úkraínskir hermenn voru teknir sem gísl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert