Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands lét ekki lítið fyrir sér fara í heimsókn sinni í Kænugarði fyrr í dag en hann skellti sér í göngutúr ásamt Volodimír Selenskí forseta Úkraínu, um miðbæ höfuðborgarinnar.
Á myndskeiði sjást leiðtogarnir tveir á rölti um tómar götur Kænugarðs í fylgd með hermönnum. Þar heilsa þeir vegfarendum og átti forsætisráðherrann spjall við einn þeirra með aðstoð túlks sem fylgdi þeim.
At a handshake distance. @BorisJohnson and @ZelenskyyUa walked through the center of Kyiv and talked to ordinary Kyivans. This is what democracy looks like. This is what courage looks like. This is what true friendship between peoples and between nations looks like. pic.twitter.com/ZcdL6NqNp2
— Defence of Ukraine (@DefenceU) April 9, 2022
„Gaman að hitta þig. Það eru forréttindi að fá að hjálpa. Þú átt ótrúlegan forseta,“ sagði Johnson við manninn sem virtist í skýjunum með kynnin.
Eins og greint hefur verið frá þá kom forsætisráðherrann í óvænta heimsókn í Kænugarð og átti hann fund með forsetanum í dag. Þar lofaði hann meiri hergögnum og lýsti yfir stuðningi Breta við Úkraínumenn.