Fjármálaráðherra í klandri vegna fjármála eiginkonunnar

Akshata Murty og Rishi Sunak.
Akshata Murty og Rishi Sunak. AFP

Ris­hi Sunak, fjár­málaráðherra Bretlands, hefur beðið Boris Johnson forsætisráðherra að rannsaka fjármál hans í kjölfar mikillar gagnrýni á skort á gagnsæi í skattamálum og fjármálum Sunak og eiginkonu hans. 

Á vef The Guardian er greint frá því að Sunak bað Johnson um að vísa málinu til Christopher Geidt, sem er óháður ráðgjafi um málefni ráherra, til þess að endurskoða allar skattaskýrslur hans frá árinu 2018, er hann varð ráðherra.

Sunak segist vera fullviss um að „allar viðeigandi upplýsingar hafi verið gefnar upp á réttan hátt“ eftir ráðleggingum embættismanna. 

Sunak hefur verið fjár­málaráðherra í ríkisstjórn Boris Johnson frá árinu …
Sunak hefur verið fjár­málaráðherra í ríkisstjórn Boris Johnson frá árinu 2018. AFP

Eiginkonan milljarðamæringur

Beiðni Sunak kemur í kjölfar gagnrýni þess að eigur Akshata Murty, eiginkonu Sunak, séu ekki á lista yfir hagsmuni ráðherra en hún á 690 milljón punda hlut í indverska fyrirtækinu Infosys, sem faðir hennar stofnaði. 

Murty hefur svokallaða „non-dom“ skattastöðu sem kveður á um að hún greiði ekki skatt í Bretlandi af þeim fjármunum sem hún þénar annars staðar.

Þetta skattafyrirkomulag nýtist þeim sem fæddust ekki í Bretlandi eða eiga foreldra sem fæddust í öðru landi.

Á vef BBC er greint frá því að Murty hefur lofað að greiða skatt af eignum sínum utan Bretlands í kjölfar gagnrýninnar. 

Á síðasta ári fékk hún tæplega tólf milljónir punda í arð, eða um tvo milljarða íslenskra króna. BBC reiknar að ef hún hefði ekki „non-dom“ skattastöðu hefði hún þurft að greiða rúmar tvær milljónir punda í skatt.

Rannsaka lekann

Eftir að skattastaða hjónanna var opinberuð á miðvikudag sagði Sunak að eiginkona hans hafi „ekki gert neitt rangt“ og að ósanngjarnt væri að ráðast á hana sem „almennan borgara“.

Á föstudag tilkynnti Murty þó að hún myndi greiða skattinn þar sem hún vildi ekki vera „til vandræða“ fyrir eiginmann sinn. 

Stjórnarráðið hefur það nú til skoðunar hvernig upplýsingum um fjármál hjónanna var lekið út til fjölmiðla

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert