Kjörstaðir opnuðu í Frakklandi klukkan sex í morgun vegna fyrri umferðar forsetakosninga í landinu.
Búist er við því að sitjandi forseti, Emmanuel Macron, og Marine Le Pen, sem er á enda hægri kvarða stjórnmálanna, komist áfram í næstu umferð og etji þar kappi um forsetastólinn.
Talið er að sú barátta verði mun jafnari heldur en þegar þau sóttust eftir embættinu fyrir fimm árum síðan.
Forsetakosningarnar eru haldnar á sama tíma og stríð geisar í Úkraínu og segja sérfræðingar að það geti haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Kjörsókn spilar þar stóra rullu.
Vegna tímamismunar hófust kosningarnar á svæðum utan Frakklands í gær, fyrst á eyjunum Saint Pierre og Miquelon undan strönd Kanada. Eftir það var kosið á svæðum í Karíbahafinu og á frönskum eyjum í Kyrrahafinu.
Seinni umferð kosninganna fer fram 24. apríl.
Samkvæmt skoðanakönnunum endar vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon í þriðja sæti í kosningunum.