Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna hafin

Kona á gangi framhjá plakötum með myndum af frambjóðendunum.
Kona á gangi framhjá plakötum með myndum af frambjóðendunum. AFP/Kena Betancur

Kjörstaðir opnuðu í Frakklandi klukkan sex í morgun vegna fyrri umferðar forsetakosninga í landinu.

Búist er við því að sitjandi forseti, Emmanuel Macron, og Marine Le Pen, sem er á enda hægri kvarða stjórnmálanna, komist áfram í næstu umferð og etji þar kappi um forsetastólinn.

Talið er að sú barátta verði mun jafnari heldur en þegar þau sóttust eftir embættinu fyrir fimm árum síðan.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Forsetakosningarnar eru haldnar á sama tíma og stríð geisar í Úkraínu og segja sérfræðingar að það geti haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Kjörsókn spilar þar stóra rullu.

Vegna tímamismunar hófust kosningarnar á svæðum utan Frakklands í gær, fyrst á eyjunum Saint Pierre og Miquelon undan strönd Kanada. Eftir það var kosið á svæðum í Karíbahafinu og á frönskum eyjum í Kyrrahafinu.

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP/Cedrick Isham Calvados

Seinni umferð kosninganna fer fram 24. apríl.

Samkvæmt skoðanakönnunum endar vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon í þriðja sæti í kosningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert