Pútín og nasisminn

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP/Mikhail KLIMENTYEV / SPUTNIK

„Við ætlum okkur að afvopna og afnasistavæða Úkraínu,“ sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti í ræðu sinni nokkrum mínútum áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst hinn 24. febrúar. En hvað átti hann við? 

Meðal þeirra ástæðna sem Pútín gaf upp fyrir „sérstöku hernaðaraðgerðinni“ var að vernda þyrfti rússneska ríkisborgara í Úkraínu fyrir nýnasistum. Margir hafa undrað sig á þessum ummælum Pútíns og spurt sig hvað hann eigi við með afnasistavæðingu Úkraínu, sérstaklega í ljósi þess að Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, er gyðingur.

Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði og Rússlandsfræðum, segir átökin í Úkraínu í dag eiga sér langa forsögu. Hann segir fjölmiðla hafa verið hikandi við að tala um nasisma innan Úkraínu og þá sérstaklega Azov-hersveitirnar sem við vendum kvæði okkar að hér í dag. 

„Rússneski áróðurinn hefur gengið út á það að rússneskumælandi íbúar Úkraínu sæti ofsóknum fyrir það að vera rússneskumælandi, það er flókin togstreita í Úkraínu með tungumálin vegna þess að svo hátt hlutfall Úkraínumanna talar rússnesku. Meðal annars Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hann talar rússnesku sem fyrsta tungumál og þurfti að leggja mikið á sig til þess að læra úkraínsku eftir að hann varð forseti,“ segir Jón. 

Spruttu upp eftir hertöku Krímskaga

Árið 2014 hertók Rússland Krímskagann og hvatti rússneska aðskilnaðarsinna í Donbass-héruðunum svokölluðu, sem eru í austurhluta Úkraínu og eiga landamæri að Rússlandi, til þess að hefja uppreisn gegn úkraínskum stjórnvöldum og styðja rússnesk stjórnvöld í hernaðarbrölti sínu þar. Rússar sendu aðskilnaðarsinnum þar vopn og vistir til að betur gangi að siga niður úkraínska herinn. Gekk það mjög vel til að byrja með og var her Úkraínumanna að liðast í sundur. 

Volodimir Selenskí forseti Úkraínu.
Volodimir Selenskí forseti Úkraínu. AFP

Brugðu þáverandi stjórnvöld í Úkraínu því á það ráð að hvetja sjálfstæða bardagahópa til að slást í hópinn og hjálpa stjórnarhernum í baráttunni gegn aðskilnaðarsinnum. Hinar ýmsu bardagasveitir spruttu upp í þeim tilgangi að berjast gegn því að Rússar næðu yfirráðum á svæðinu. Af þeim fjölmörgu bardagasveitum sem spruttu upp í austur Úkraínu var ein sérlega afkastamikil. Það var bardagasveit sem síðar hefur fengið nafnið Azov-herfylkið.

Azov-herfylkið samanstendur af úkraínskum þjóðernissinnum og öfgahægrimönnum sem vildu hjálpa til við vernd landsins. Mestmegnis fótboltabullur og aðrir óeirðaseggir segir Anton Shekhovtsov, sem heldur úti YouTube-rás, og útskýrir þar uppgang Azov-herfylkisins. 

Í þessum hópi voru um 1.000 hvítir þjóðernissinnar sem ýmist höfðu verið reknir úr úkraínska hernum vegna skoðana sinna eða einfaldlega vildu taka þátt í stríðinu og fá að bera vopn og berjast. Af þeim sem áður höfðu verið í hernum var þetta tilvalið tækifæri til að fá að ganga í herinn aftur eða þeir sem ekki höfðu hlotið inngöngu áður gátu nú tekið upp vopn og tekið þátt í alvöru stríði. Á meðan úkraínski herinn var að tapa stríðinu spurði hann ekki um stjórnmálaskoðanir þeirra sem tilbúnir voru að hjálpa honum, sem kom sér vel fyrir liðsmenn Azov-herfylkisins. 

Úkraína er um 600 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða um …
Úkraína er um 600 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða um sex sinnum stærra en Ísland. AFP

Á meðan Rússar reyndu að ná hafnarborginni Maríupol á sitt vald árið 2014 átti Azov-herfylkið stóran þátt í því að Úkraínumenn héldu hafnarborginni. En borgin er staðsett milli Donbass-héraðanna og Krímskagans, því er hún mikilvægur þáttur í áformum Rússa og hvernig þeir ætli sér að yfirtaka Úkraínu. Í raun spilaði hún svo stóran þátt að meðlimum herfylkisins var fagnað sem stríðs- og þjóðhetjum eftir að mestu átökunum lauk 2015. 

Hægt er að lesa nánar um hernaðarlegt mikilvægi Maríupol í frétt BBC.

Frá þeim tíma hefur Azov-herfylkið verið viðurkennt sem herdeild innan úkraínska þjóðvarðliðsins, þó það sé tekið fram að það sé ekki beinn aðili að hernum og ekki í háttsettum stjórnunarstöðum þar. Þeirri viðurkenningu fylgdi æfingaskýli og húsnæði, aukin hjálp frá hernum við skipulagningu og herkænsku og aukið fjármagn. „Herdeildin komst á þessum tíma undir opinber yfirráð og hafði herinn þá meiri umsjón yfir herfylkinu,“ segir Jón.

Meðal annars átti að senda meðlimi herfylkisins í æfingabúðir til Bandaríkjanna af hálfu Úkraínuhers en Bandaríkjaþing tók fyrir það og demókratar í Bandaríkjunum vildu skilgreina hópinn sem hryðjuverkasamtök. 

Árið 2016 var gefin út skýrsla af Mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna þar sem liðsmenn Azov-herfylkisins voru ásakaðir um mannréttindabrot.

Einkennismerki Azov-herdeildarinnar
Einkennismerki Azov-herdeildarinnar

Stefndu á frama á stjórnmálasviðinu

„Auðvitað eru fasistaöfl í Úkraínu sem eru tengd þessari hersveit sem reyndu að hasla sér völl eftir þetta, en það hefur bara ekki tekist,“ segir Jón. 

Með tímanum settu liðsmenn Azov-herfylkisins sér það markmið að gera sig gildandi á þjóðfélagsumræðunni á landsvísu vegna vinsælda sinna meðal þjóðarinnar. Því varð til stjórnmálaflokkurinn Þjóðherdeildin (e. National Corps) sem varð nokkurs konar pólitískur armur Azov-herfylkisins, þrátt fyrir að leiðtogar flokksins, sem höfðu verið herforingjar og stofnendur Azov-deildarinnar hafi reynt að gera lítið úr tengslum sínum við herfylkið. Flokkurinn bauð fram í þingkosningunum árið 2014 og náði stofnandi hópsins, Andrí Biletskí inn á þing.

Flokkurinn var kenndur við öfgahægristefnu þar sem gagnrýnd voru meðal annars mannréttindi LGBTQ+ samfélagsins og annarra minnihlutahópa. Biletskí, sem er núverandi formaður flokksins, sagði árið 2010 að markmið hans væri að „ leiða hvíta þjóðernissinna heimsins í hinstu krossferðina.“

Azov-herdeildin.
Azov-herdeildin. AFP

Notast flokkurinn við merkingar og tákn sem svipa til hakakrossanna sem þýskir nasistar báru. Margir hermenn bera persónulegar merkingar sem líkjast merkjum SS-sveita Hitlers, munum úr norrænni goðafræði og annarra merkja sem tengja má við þjóðernishyggju.

Flokkurinn hefur meðal annars haldið úti sumarbúðum og staðið fyrir tónlistar- og bardagahátíðum, en í myndbandi sem The Guardian gerði má sjá sumarbúðir Azov-herfylkisins.

Því er haldið fram að flokkurinn sé fjármagnaður af úkraínskum ólígörkum og milljarðamæringum sem aðhyllast stefnu flokksins eða styðja sjálfstæði Úkraínu.

Í þingkosningunum árið 2019 bauð flokkurinn aftur fram og þá í kosningabandalagi með öðrum þjóðernissinnum. Náði bandalagið samanlagt rúmum 2% í fylgi og náði engu þingsæti af 450. Þá á flokkurinn 23 menn af 158.399 í hinum ýmsu borgar-, og bæjarstjórnum landsins.

Haldið er fram af stjórnmálaspekingum sem kynnt sér hafa pólitíkina í Úkraínu að snemma árs 2012 hafi Andrí Biletskí, núverandi formaður National Corps, náð inn á þing fyrir annan stjórnmálaflokk, sem einnig var þjóðernisflokkur, vegna þess að hann hafi verið eina stjórnmálaafl landsins sem opinberlega gagnrýndi Kreml og rússnesk stjórnvöld. Aðrir stjórnmálaflokkar hafi farið diplómatískari leið og fylgi flokksins hafi í raun ekki verið vegna öfga-hægristefnu eða þjóðernishyggju. Biletskí hafi því ekki náð árangri í þeim kosningum sem haldnar hafa verið eftir 2014 þar sem fleiri stjórnmálaflokkar Úkraínu hafi sett sig upp á móti Kreml og sérstaða flokksins þar með horfið.  

Frá árinu 2014 hefur Azov-herfylkið breyst mjög og er talið að stór hluti hópsins, sem telur um 1.500 manns sé nú ósammála þeim stjórnmálaskoðunum sem herfylkið var upprunalega stofnað í kringum. Í dag segjast þeir vera herdeild sem sinni sérstökum verkefnum fyrir úkraínska herinn og neita tengslum við nasisma. Erfitt er að segja að hópurinn hafi gífurleg tök í úkraínsku samfélagi eða stjórnsýslu segir Jón Ólafsson, prófessor í Rússlandsfræðum. 

Blórabögglar Rússa

Rússar hafa hins vegar í stríðinu bent sérstaklega á Azov-herfylkið og sagt hana bera ábyrgð á hinum ýmsu voðaverkum. Sem dæmi má nefna segja Rússar að Azov-herdeildin hafi sjálf sprengt Borgarleikhúsið í Maríupol, sem merkt hafði verið „börn“ á öllum hliðum hússins á rússnesku. Þá eigi hersveitin að hafa stundað morð á almennum borgurum víðsvegar í Úkraínu. 

Í Úkraínu er um 30% íbúa sem tala rússnesku sem fyrsta tungumál, þar á meðal er Volodimír Selenskí, forseti landsins. Rússar hafa haldið því fram að rússneskumælandi fólk í Úkraínu verði fyrir aðkasti, vegna þeir að þeir séu rússneskumælandi og hafi þeir þess vegna sent hersveitir inn í landið.

„Athygli vekur að í Donbass-héröðunum, þar sem Azov-hersveitin, sem sín á milli talar rússnesku, ver Úkraínu, berjast Téténar fyrir hönd Rússa, sem sín á milli tala téténsku,“ segir Jón. 

Þeir segja einnig að herfylkið hafi ráðist á flóttaleiðir þær sem Rússar og Úkraínumenn hafa samið um fyrir almenna borgara og þar með rofið umsamið vopnahlé. Samkvæmt því hafi Azov-herfylkið gert árás á saklaust fólk og því hafi rússneski herinn ekki getað staðið við vopnahléið og hafið skothríð, til að vernda saklausa úkraínska borgara frá aðilum innan úkraínska hersins. Úkraínumenn segja hins vegar að Rússar hafi átt frumkvæðið að skothríðinni og lokað fyrir flutninga almennra borgara frá umsetnum borgum Úkraínu. 

Vegna áróðurs Rússa og þeirra sem eru vinveittir Rússum gegn Azov-herfylkinu hafa vestræn ríki verið hikandi í fyrri tíð við að hjálpa Úkraínska hernum og oft sett þau skilyrði að þau vopn sem Úkraínuher fái renni ekki til þessarar herdeildar. Azov-herfylkið hefur því átt erfitt uppdráttar með varnir í hinni mikilvægu hafnarborg Maríupol, þar sem þá vantar ýmis mikilvæg tæki og vopn sem Rússar búa yfir. Þar vantar Úkraínumenn dróna og varnir gegn skriðdrekum, vopn sem gefin hafa verið öðrum hersveitum innan Úkraínuhers, sem ekki máttu renna til Azov-herfylkisins.

Þá hafa Rússar einnig beint netárásum og dreift falsfréttum til íbúa Maríupol í nokkur ár til að búa til andspyrnu við hersveitina, án árangurs þó. 

Fasismi í Rússlandi

Innan Rússlands sjálfs eru margir hópar öfgahægrimanna og þjóðernissinnar sem Pútín hefur ekki enn lýst yfir að hann vilji uppræta innan síns eigin ríkis. „Russian Imperial Movement“ eða RIM-hópurinn var til dæmis fyrstu samtök hvítra þjóðernissinna sem bandaríska utanríkisráðuneytið skilgreindi sem hryðjuverkasamtök. Sá hópur hefur meðal annars undirbúið hermenn fyrir stríðið í Úkraínu. Pútín hefur í gegnum tíðina haldið góðum tengslum við þjóðernissinnaða stjórnmálamenn annarra landa, Marine Le Pen og Matteo Salvini sem dæmi.

Kreml og rússneskir fjölmiðlar hafa ítrekað haldið fram að þessi 1.500 manna hópur hægri öfgamanna innan Úkraínu sem kallast Azov-herfylkið kalli á afnasistavæðingu, sem sé hin raunverulega ástæða innrásarinnar. Ítök hennar í úkraínsku þjóðlífi eru þó engan veginn slík, að hægt sé að taka undir þá skýringu. 

Hér má sjá ýtarlega umfjöllun Al Jazeera um Azov-herfylkið. 

Úkraína mótmælir.
Úkraína mótmælir. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert