Sækist eftir réttlæti fyrir fjöldamorð Sovétmanna

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands. AFP

Andrzej Duda, forseti Póllands, ætlar að leita réttlætis fyrir alþjóðlegum dómstólum vegna fjöldamorðanna í Katyn-skógi þar sem meira en 22 þúsund pólsk­ir her­menn voru drepnir af sovéskum hermönnum árið 1940. 

Stalín gaf fyr­ir­skip­un um morðin en Sovétmenn héldu því alltaf fram að þýsk­ir nas­ist­ar hefðu staðið fyr­ir þeim. Það var ekki fyrr en 1990 sem Rúss­ar viður­kenndu op­in­ber­lega að Stalín hefði gefið fyr­ir­skip­un um morðin.

„Þjóðarmorð hafa ekki fyrningarfrest. Þess vegna mun ég krefjast að þetta mál verði afgreitt frammi fyrir alþjóðlegum dómstólum. Við munum leggja fram viðeigandi aðgerðir á næstunni,“ sagði Duda í ræðu í dag en 82 ár eru frá morðunum.

Hann sagði ekki hver yrði sóttur til saka né fyrir hvaða dómstóli.

„Gleymdir glæpir sem ekki hefur verið refsað fyrir, glæpir gegn mannkyninu, ýta undir að gerendur komist undan án refsingar. Það er eins og grænt ljós fyrir arftaka þeirra og fylgjendur.“

Nefndi Duda í því samhengi stríðið í Úkraínu.

Þá sagði hann að Póllandi myndi styðja Úkraínumenn í að sækja Rússa til saka fyrir alla þá stríðsglæpi sem þeir hafa framið. Ekki yrði beðið í meira en 80 ár líkt og með fjöldamorðin í Katyn-skógi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert