Algjört viðskiptabann á alla rússneska orku gæti stöðvað stríðið í Úkraínu að sögn Andrei Illarionov, fyrrum ráðgjafa Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Á vef BBC er greint frá því að Illarionov, sem var áður aðalráðgjafi Pútín í efnahagsmálum, telji að yfirvöld í Rússlandi taki hótunum frá öðrum ríkjum um skert kaup á rússneskri orku „ekki alvarlega“.
Ýmis ríki hafa reynt að minnka eða hætta kaupum á rússnesku jarðgasi og olíu en mörg halda þó viðskiptum áfram.
40% jarðgass og 27% olíu sem ríki Evrópusambandsins (ESB) keyptu á síðasta ári var frá Rússlandi.
Joseph Borell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, sagði í vikunni að ESB borgaði Pútín um milljarð evra á hverjum degi fyrir orku.
Í viðtali við BBC sagði Illarionov að ef vestræn ríki myndu setja algjört viðskiptabann á rússneska olíu og jarðgas myndi Rússland neyðast til þess að gefast upp á einum eða tveimur mánuðum.
„Það er eitt af mjög áhrifaríkum leiðum sem vestræn ríki eiga í boði.“
Vegna refsiaðgerða sem ýmis ríki hafa nú þegar sett á er gert ráð fyrir að efnahagur Rússlands dragist saman um 8% til 15% á þessu ári.
Illarionov telur að Pútín sé undirbúinn fyrir þann samdrátt og að það sýni hvar áherslur hans liggi.
„Áhugi hans á landsvæði, áhugi hans á að Rússlandi verði að heimsveldi, eru miklu mikilvægari en allt annað. Þar með talið lífsviðurværi rússnesku þjóðarinnar og fjárhagsstaða landsins... jafnvel mikilvægara en fjárhagsstaða ríkisstjórnarinnar.“
Alþjóðabankinn gerir ráð fyrir að 20 milljónir Rússa lifi við fátækt. Pútín hefur heitið því að helminga þá tölu.
Illarionov telur hins vegar að sú tala muni tvöfaldast, eða jafnvel þrefaldast á næstu árum.
Illarionov býr nú í Bandaríkjunum og segir það vera óumflýjanlegt að stjórnarskipti verði í Rússlandi „fyrr eða síðar“.
„Það er ómögulegt fyrir Rússland að eiga bjarta framtíð með núverandi stjórnarhætti.“