Erfiður mánuður framundan í Karkív

Þetta verður erfiður mánuður fyrir Karkív, að sögn úkraínsks öryggissérfræðings, sem býr í þessari næststærstu borg Úkraínu.

Maria Adeeva, sagði í viðtali við BBC Radio 4, að harðar árásir hafi verið gerðar á borgina, sem er í norðausturhluta landsins, og bæina í kring síðustu þrjá daga.

Ellefu manns hafa látist til þessa, þar á meðal sjö ára barn, samkvæmt opinberum upplýsingum.

Í meðfylgjandi myndskeiði sést Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hvetja þjóðir heims til aukinna refsiaðgerða gegn Rússum. 

„Þeir eru að nota nýjar tegundir af sprengjum sem eru þeirrar tegundar að þeim er varpað niður með fallhlífum um miðnætti, sem þýðir að þú heyrir ekki í þeim á leiðinni niður og þess vegna eru þær sérstaklega hættulegar,“ greindi Adeeva frá.

Eldri kona bendir á eyðileggingu af völdum Rússa í borginni …
Eldri kona bendir á eyðileggingu af völdum Rússa í borginni Karkív. AFP/SERGEY BOBOK

Hún óttast að rússneskar hersveitir muni ná að sækja fram úr borginni Izyum, sem er undir stjórn Rússa í suðaustri, og leggja undir sig Karkív.

Hún bætti þó við að rússneskar hersveitir séu í vandræðum vegna skorts á hergögnum og hermönnum og því sé óvíst hvort þær reyni að ná völdum í Karkív.

Samt sem áður, þó svo að hersveitirnar ákveða að hætta árásum á jörðu niðri, munu þær halda áfram árásum sínum úr lofti og „ráðast þannig vísvitandi á almenna borgara“, sagði Adeeva.

Úkraínskur hermaður gengur um húsarústir í borginni Chuguiv, skammt frá …
Úkraínskur hermaður gengur um húsarústir í borginni Chuguiv, skammt frá Karkív. AFP/SERGEY BOBOK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert