Segir Rússa ætla að ná Kænugarði

Ramzan Kadyrov á fundi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta árið 2019.
Ramzan Kadyrov á fundi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta árið 2019. AFP

Ramzan Kadyrov, leiðtogi Tétsníu, segir að árásir séu fyrirhugaðar af hálfu Rússa, ekki bara á hafnarborgina Maríupol, heldur einnig á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, og aðrar úkraínskar borgir.

Í myndbandi sem var birt á Telegram snemma í morgun sagði Kadyrov að hann ætlaði að „frelsa að fullu [héruðin Luhansk og Donetsk í austri]... og eftir það taka yfir Kænugarð og allar aðrar borgir,“ sagði hann.

„Ég fullvissa ykkur um að það verður ekkert gefið eftir,“ bætti hann við, að sögn BBC.  

Hermaður frá Tétsníu.
Hermaður frá Tétsníu. AFP

Stríðið í Úkraínu hefur færst meira austur á bóginn þar sem úkraínskar hersveitir eru gráar fyrir járnum og vel undirbúnar.

Rússneskir embættismenn segjast núna einbeita sér að „algjörri frelsun“ Donbas, og eiga þar við héruðin Luhansk og Donetsk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert