Segja Rússa hafa notað efnavopn

Rússar hafa látið margar sprengjur falla á borgina Mariupol.
Rússar hafa látið margar sprengjur falla á borgina Mariupol. AFP

Asov-hersveitin segir rússneska hermenn í Maríupol hafa notað eiturefni af óþekktum uppruna gegn úkraínska hernum og óbreyttum íbúum borgarinnar. Úkraínska fréttastofan Hromadske greinir frá.

Að sögn sveitarinnar var eiturefninu varpað úr flugvél óvinarins nú í kvöld. Fórnarlömbin glími nú við m.a. við öndunarbilanir.

Ítarlega var fjallað um Asov-hersveitina í frétt mbl.is í gær. 

Opinberar staðfestingar liggja ekki fyrir

Kemur þó fram í frétt Hromadske að engar opinberar staðfestingar liggi fyrir frá yfirvöldum eins og er. Hins vegar sagði heimildarmaður fréttastofunnar sem hefur tengsl við varnarmálaráðuneyti Úkraínu í samtali við Hromadske að miklar líkur væri á því að hermennirnir beiti efnavopnum.

Úkraínska fréttastofan Kyiv independent hefur einnig greint frá árásinni. Segir á vef fréttastofunnar að efninu hafi verið dreift með dróna og að fórnarlömbin glími við öndunarerfiðleika og vesibullocerebellar ataxia sem hefur áhrif á hreyfigetu.

Þá mun þetta mögulega vera í fyrsta sinn sem Rússar nota efnavopn í Úkraínu, svo vitað sé, að sögn fréttastofunnar.

Óskar Hallgrímsson, Íslendingur búsettur í Kænugarði, segist í samtali við mbl.is hafa frétt af árásinni frá nokkrum stöðum m.a. á tveimur rásum á samskiptamiðlinum Telegram. Bæði á síðu Asov-hersveitarinnar og á óformlegri síðu Kænugarðs. Þá hafi verið fjallað um árásina í sjónvarpsfréttum fréttastofunnar Ukraine 24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert