Meirihlutaflokkurinn á þingi Svíþjóðar, Sósíaldemókratar, hófu umræður innan flokksins í dag um það hvort að flokkurinn ætti að vera hlynntur Atlantshafsbandalaginu (NATO) eður ei.
Það sem þótti ómögulegt fyrir nokkrum mánuðum virðist nú verða æ líklegra með hverjum deginum. Stuðningur almennings við að ganga í Atlantshafsbandalagið hefur stóraukist í Svíþjóð í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.
Stuðningur almennings hefur tvöfaldast á þessum stutta tíma og mælist nú um helmingur almennings hlynntur inngöngu í bandalagið samkvæmt skoðanakönnunum.
Sósíaldemókratar og formaður flokksins og núverandi forsætisráðherra landsins, Magdalena Andersson, hafa til þessa verið mótfallinn því að Svíþjóð gangi í NATO en í ljósi aðstæðna lítur flokkurinn svo á að nauðsynlegt sé að ræða möguleikann á því að ganga í bandalagið.
Búist er við því að afstaða gagnvart bandalaginu eigi eftir að skipta sköpum í komandi þingkosningum í Svíþjóð sem mun fara fram 11. september. Sömu sögu er að segja af nágrannaríki Svíþjóðar, Finnlandi. Þar í landi hefur stuðningur almennings við að ganga í Atlantshafsbandalagið mælst um 60 prósent í skoðanakönnunum nýlega.
Svíþjóð á langa sögu af hlutleysi í átökum en ljóst er að innrás Rússlands inn í Úkraínu hefur breytt afstöðu Svía töluvert hvað það varðar. Formaður Íhaldsflokksins í Svíþjóð, Ulf Kristersson, hefur nú þegar tilkynnt að hann ætli sér að óska eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið ef flokkurinn öðlast meiri hluta á þingi eftir kosningarnar í september.