Búist er við því að hersveitir Rússa eigi eftir að ná Maríupol á sitt vald í kvöld eða nótt, en átök á milli úkraínskra og rússneskra hersveita hafa staðið yfir síðustu vikur í borginni sem staðsett er í austurhluta Úkraínu.
Tæpar sjö vikur eru nú liðnar frá því að stríðið í Úkraínu hófst, en átökin í Maríupol hafa verið á meðal þeirra mannskæðustu í stríðinu.
Úkraínsk yfirvöld tilkynntu í dag að um 1.200 lík hafi fundist í úthverfum Kænugarðs og að alls 500 Rússar væru grunaðir um morð, þeirra á meðal Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Franskir rannsakendur eru nú komnir til Úkraínu og rannsaka mögulega stríðsglæpi fyrir hönd Evrópusambandsins.
Greint var frá því fyrr í dag að skotfæri úkraínskra hersveita í Maríupol væru á þrotum og að gert væri ráð fyrir lokaorystunni um borgina í dag. Óvíst er hve margir almennir borgarar hafa fallið í átökunum það sem af er dags.
Hersveitir Rússa hafa síðustu daga einblínt, fyrir utan Maríupol, á fleiri hernaðarlega mikilvæg svæði í austurhluta landsins, m.a. á flugvelli í borginni Dnipro og samgönguinnviði í Lugansk.
Utanríkisráðherrar ríkja Evrópusambandsins komu saman á mánudag og ræddu frekari refsiaðgerðir á hendur háttsettum Rússum, en óeining ríkir um áframhaldandi innflutning á rússnesku jarðgasi og olíu.