Á fimmta tug látið lífið vegna flóða

Aurskriður hafa ollið miklum skaða.
Aurskriður hafa ollið miklum skaða. AFP/Rajesh Jantilal

Að minnsta kosti 45 hafa látið lífið í flóðum og aurskriðum í hafnarborginni Durban í Suður-Afríku þar sem úrhellisrigning hefur verið undanfarna daga. Götur í borginni standa á kafi í vatni, samgönguinnviðir hafa orðið fyrir miklum skemmdum og aflýsa þurfti lestarferðum í samliggjandi héraði vegna aurskriða.

„Síðustu skýrslur gefa til kynna að yfir 45 manns hafi misst lífið vegna mikillar rigningar. Þessi tala gæti mögulega hækkað þegar frekari upplýsingar berast,“ sagði í tilkynningu frá yfirvöldum.

Eldnseytistrukkur við strendur Durban eftir flóðið.
Eldnseytistrukkur við strendur Durban eftir flóðið. AFP/Rajesh Jantilal

Björgunaraðgerðir standa yfir

Bílar standa á kafi í vatni og ríflega tvö þúsund hús og fjögur þúsund óskráð heimili hafa skemmst í rigningunni. Þá hafa einnig flutningagámar verið á floti á hraðbrautum borgarinnar.

Miklar skemmdir eru á innviðum.
Miklar skemmdir eru á innviðum. AFP/Phill Magakoe

Mxolisi Kaunda borgarstjóri Durban sagði fyrr í dag að vatn hefði flætt í rafmagnsstöðvar og að kirkjugarðar væru einnig í slæmu ásigkomulagi.

Björgunaraðgerðir standa nú yfir og hefur herinn komið til aðstoðar við að flytja fólk í sjálfheldu á öruggt svæði. Meðal þeirra sem eru í hættu eru kennarar og nemendur framhaldsskólans í Durban.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert