Borgin Borodíanka úti fyrir Kænugarði í Úkraínu er nær rústir einar í kjölfar innrásar Rússa í landið. Hersveitir Rússa hörfuðu frá borginni í síðustu viku.
Óskar Hallgrímsson ljósmyndari sem búsettur er í Kænugarði heimsótti borgina í dag ásamt hópi blaðamanna. Í fyrradag hafði Óskar farið til bæjarins Bútsja, sem hefur mikið verið í sviðsljósinu síðustu daga vegna fjöldamorðsins sem þar var framið. Þar náði hann tali af heimamönnum og sá með eigin augum þá eyðileggingu sem hefur átt sér stað síðustu vikur.
„Ég fór þangað og myndaði svakalega eyðileggingu. Borgin er bara í rúst,“ segir Óskar um Borodíanka.
„Það er áhugavert að bera þetta saman viðBútsja. Ég veit ekki hvað gekk á íBorodíanka á meðan Rússarnir voru þar, en það sem ég veit er að það voru merki um svakalegan bardaga þarna, merki um þungavopn. Það voru flugskeytagöt í húsum og svona.
Í Bútsja voru kynferðisbrot, fólki nauðgað fyrir framan börnin sín og aðrir hræðilegir hlutir, tilfinningin þegar þú fórst inn í Bútsja – það lá svo þungt yfir. Það var eiginlega engin þar, mikil þögn, allt rafmagnslaust og vatnslaust og ótrúlega fáir bílar á ferð,“ segir Óskar.
„Munurinn var að þarna voru allir að endurbyggja eða taka til. Það voru fullt af slökkviliðsmönnum og sjálfboðaliðum – fólk var að elda og það var grill fyrir sjálfboðaliða. Það voru bílar á götunum og miklu meira líf einhvern veginn. Þetta var eins og að koma inn í það sem þetta er – eftirmála stríðs. Þetta var svona eins og þú myndir ímynda þér eftirmála stríðs; allt í rúst og fólk að vinna að því að laga hlutina,“ segir Óskar.
Óskar segir að fleira fólk hafi verið í Borodíanka en raunin var í Bútsja. „Í Borodíanka er aðallega fólk sem hefur ekki mikið á milli handanna. Þannig að þegar stríðið hefst er þetta fólk ekki að flýja því það hefur ekki í nein hús að vernda – það hefur ekki efni á að fara eitthvert. Þannig að það var mikið af fólki enn þá þarna.“
Á meðal þeirra íbúa sem Óskar talaði við íBorodíanka var maður að nafni Vasyl, sem hafði fyrir tilviljun eina brugðið sér af heimili sínu skömmu áður en flugskeyti sprakk á byggingunni.
„Vasyl var að hjálpa nágrönnum sínum að taka út eigur sínar þegar ég hitti hann. Hann hafði verið heima fyrir og ákvað að fara niður og var að kíkja út í bílskúr, hann er svo fyrir utan þegar það kemur flugskeyti á bygginguna. Hann var akkúrat á bakvið bílskúrinn þegar sprengingin kemur og bílskúrinn verndaði hann – öll húsin þarna í kring voru alveg í rúst eftir þessa sprengingu. Konan hans var í byggingunni – svo hann horfir á konuna sína og allar eigur þeirra brenna í byggingunni eftir þessa sprengingu. Við fórum og skoðuðum íbúðina hans og hún var algjörar brunarústir,“ segir Óskar.
Óskar segir eyðilegginguna í Borodíanka hafa verið annars eðlis en í Bútsja. Þó hafi verið merki um stríðsglæpi í báðum borgum, en af ólíku meiði.
„Það voru merki um stríðsglæpi. Borgin þjónar engum hernaðarlegum tilgangi og þessi eyðilegging sem varð þarna var ekki nauðsynleg. Það var liggur við búið að jafna fullt af íbúðablokkum þarna við jörðu. En ég varð ekki vitni af samskonar og var íBútsja, það sem ég varð vitni af var svakaleg óþarfa eyðilegging og töpuð mannslíf. En ég hef ekki heyrt af því að það hafi verið aftökur eða kynferðisbrot eins og var íBútsja og þar var eyðileggingin öðruvísi.
Maður er manneskja og fer að bera svona hluti saman. Bútsja var svo svakalega ógeðslegt og svo er maður að heyra af svona hörmungum úr Maríupol og víðar – líkbrennsluofnum og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er bara einn táradalur, hvert sem þú lítur. Ég er bæði farinn að venjast þessu og er ótrúlega reiður,“ segir Óskar.