Rússar hafa dregið hersveitir sínar til baka frá svæðum umhverfis Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, en hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar. Margir almennir borgarar eiga um sárt að binda. BBC ræddi við konu sem var nauðgað af hermanni.
Fleiri frásagnir af kynferðisofbeldi og morðum er að finna í frétt BBC og er rétt að vara við lýsingunum.
Í litlu og rólegu hverfi um 70 km vestur af Kænugarði ræddi BBC við Önnu, sem er fimmtug, en nafni hennar var breytt henni til verndar.
Hún sagði frá því að 7. mars hafi hún verið heima hjá sér með eiginmanni sínum þegar erlendur hermaður ruddist þangað inn. „Með byssu í hendi fór hann með mig í nálægt hús. Hann skipaði mér: „Taktu af þér fötin eða ég skýt þig“. Hann hélt áfram að hóta að drepa mig ef ég gerði ekki það sem hann sagði. Þá byrjaði hann að nauðga mér,“ sagði hún.
Anna lýsir árásarmanninum sem ungum, grönnum hermanni frá Tétsníu.
„Þegar hann var að nauðga mér gengu fjórir hermenn til viðbótar inn. Ég hélt að ég væri búin að vera. En þeir fóru með hann í burtu. Ég sá hann aldrei aftur,“ sagði hún. Hún telur að önnur hersveit rússneskra hermanna hafi þarna komið henni til bjargar.
Þegar Anna kom heim til sín aftur hafði eiginmaður hennar verið skotinn í kviðinn. „Hann hafði reynt að hlaupa á eftir mér og bjarga mér en var skotinn með mörgum byssukúlum,“ sagði hún. Þau leituðu bæði aðstoðar í húsi hjá nágranna. Þeir gátu ekki farið með eiginmann hennar á sjúkrahús vegna bardaganna. Hann lést af sárum sínum tveimur dögum síðar.