Ofbeldi gegn konum verði rannsakað

Úkraínskir hermenn í Lugansk-héraði í gær.
Úkraínskir hermenn í Lugansk-héraði í gær. AFP/Anatolii Stepanov

Æðstu embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa óskað eftir því að rannsókn fari fram á ofbeldi Rússa gagnvart konum eftir að þeir réðust inn í Úkraínu. Einnig vilja þeir að börn fái aukna vernd.

„Þetta stríð verður að hætta,“ sagði Sima Bahous, yfirmaður hjá UN Women, á fundi hjá öryggisráði SÞ í New York.

„Við heyrum sífellt fleiri frásagnir af nauðgunum og kynferðisofbeldi. Það þarf að rannsaka allar þessar ásakanir og tryggja að réttlætið nái fram að ganga,“ bætti hún við.

Sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, Dmitrí Polyanskí, bað Sameinuðu þjóðirnar um að virða „sakleysi uns sekt er sönnuð“ og bætti við að „sérstök hernaðaraðgerð“ Rússa í Úkraínu eigi að „bjarga framtíð Úkraínu“.

Frá fundi öryggisráðsins í gær.
Frá fundi öryggisráðsins í gær. AFP

Manuel Fontaine, yfirmaður hjá UNICEF, vonaðist einnig til að stríðið hætti og varaði jafnframt við auknum möguleika á hungursneyð barna.

„Af þeim 3,2 milljónum barna sem talið er að séu enn á heimilum sínum er hætta á að næstum helmingur þeirra fái ekki nógu mikinn mat,“ sagði hann við öryggisráðið og bætti við að ástandið væri jafnvel enn verra í borgum á borð við Maríupol og Kherson þar sem margar vikur hafa liðið án rennandi vatns, hreinlætisaðstöðu, reglulegs matar og læknisþjónustu.

Börn á flótta frá Úkraínu.
Börn á flótta frá Úkraínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert