Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði á blaðamannafundi í dag að ákvörðun um hvort ríkið muni ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) verði tekin innan „nokkurra vikna“.
Marin sagðist ekki sjá ástæðu fyrir því að tefja ákvörðunina mikið lengur.
Þessi yfirlýsing stendur í stúf við skýrslu sem finnska þingið gat út þar sem kveðið var á um að innganga í NATO myndi auka spennu á landamærum Rússlands og Finnlands.
BBC greinir frá því að Marin ásamt Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafi fundað í dag en Rússar hafa varað ríkin tvö við að ganga í bandalagið á undanförnum vikum.
Andersson sagði á blaðamannafundi eftir fundi ráðherranna að sama „alvarlega greining“ ætti sér nú til staðar í Svíþjóð og tók undir ummæli Marin um að ekki ætti að tefja ákvörðunina lengur.
Svenska Dagbladet greindi frá því fyrr í vikunni að Andersson miðaði við að sækja formlega um inngöngu fyrir fund NATO í júní.
Finnland á 1.340 kílómetra löng landamæri að Rússlandi og hefur Dmitry Peskov, talsmaður ríkisstjórnar Rússlands, ítrekað að þeir þyrftu að „ná jafnvægi á stöðunni“ ef umsóknin færi í gegn.
Marin gaf ekki nánari tímasetningu um hvenær ákvörðun yrði tekin.