Erfitt að fullyrða um efnavopnanotkun

Volodymír Selenskí, for­seti Úkraínu.
Volodymír Selenskí, for­seti Úkraínu. AFP

Volodymír Selenskí, for­seti Úkraínu, segist ekki geta fullyrt að Rússar hafi beitt efnavopnum í sókn sinni að hafnarborginni Maríupol í suðurhluta Úkraínu. Samkvæmt óstaðfestum fregnum beittu Rússar efnavopnum gegn hermönnum og óbreyttum borgurum í Maríupol.

Selenskí sagði í ávarpi í gærkvöldi að hann tæki tilkynningum um slíkar árásir mjög alvarlega.

„Við getum hins vegar enn ekki fullyrt það með algjörri vissu hvað var um að ræða,“ sagði forsetinn.

Hann sagði enn fremur að nánast væri ógjörningur að rannsaka hvort efnavopnum hafi verið beitt í Maríupol en borgin hefur verið lögð í rúst í árásum Rússa undanfarnar vikur.

Borgin er enn umkringd rússnesku herliði og því ekki hægt að koma þangað búnaði og mannskap til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert