Gömul vinasambönd skila sér í nýjum sjúkrabílum

Jaroslav hefur verið í sambandi við gamla vini í Litháen …
Jaroslav hefur verið í sambandi við gamla vini í Litháen frá því að stríðið braust út og höfðu þeir milligöngu um að senda mannúðaraðstoð til Ódessu, auk þess að fá sérstakan sjúkrabíl.

Vinátta Jaroslavs við opinberan starfsmann í Litháen sem heimsótti Ódessu nokkrum sinnum á síðustu árum er heldur betur að skila sér í aðstoð til borgarinnar. Karíne veltir fyrir sér hvort list þagni í raun á stríðstímum og Sergei fylgir öðrum vini, sem er fórnarlamb stríðsins, til grafar.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Þriðjudagur 11. apríl

Jaroslav í Ódessu

Frá árinu 2017 til 2020 vann ég fyrir fyrirtæki föður míns. Hlutverk mitt var að keyra með og aðstoða fólk með fatlanir eða sem átti erfitt með að komast á milli staða sjálft. Oft var um að ræða hátt sett fólk og fólk sem kom erlendis frá.

Einn daginn sótti ég mann á flugvöllinn, en hann kom á vegum yfirvalda í Litháen. Ég aðstoðaði hann í nokkra daga, en þetta var heldur ekki eina heimsókn hans. Við náðum vel saman og spjölluðum mikið og grínuðumst saman þegar hann kom. Síðasta skiptið sem ég hitti hann var svo um ári fyrir innrásina.

Á fjórða eða fimmta degi innrásarinnar hringdi fyrrverandi yfirmaður hans svo í mig og spurði mig hvernig fjölskyldan mín hefði það. Hann bauð í kjölfarið fram aðstoð sína og spurðu hvað hægt væri að gera.

Í framhaldinu fór af stað allskonar vinna og þau sáu um alla pappírsvinnu og það sem þurfti. Fyrir nokkrum klukkustundum fékk ég svo skilaboð um að allt væri klárt og á morgun mun borgarstjórinn hér taka á móti nýjum sjúkrabílum og annarri mannúðaraðstoð. Hluti hennar er svo sérstaklega fyrir sjálfboðasamtökin sem ég starfa fyrir. Ég er svo þakklátur fyrir þessa gjöf og mun aldrei gleyma þessum velvilja. Takk kærlega fyrir alla hjálpina, fyrir að hlusta og fyrir að aðstoða okkur í þessum aðstæðum. Ég sendi faðmlag til allra!

Karíne í Karkív

Stórskotaliðsárásirnar stóðu yfir í næstum því allan dag og nokkrar sprengjur lentu í miðbænum. Það var þó engin sprengja sem sprakk í næsta nágrenni við húsið okkar.

Ég sat í dag námskeið um þróun listastefna, en þetta er hluti af náminu mínu og fer nú fram á netinu. Ég ræddi meðal annars um franska listamanninn Eugene Ciceri, sem var hluti af Barbizon-skólanum. Því miður gátu ekki allir nemendurnir tekið þátt í námskeiðinu í dag og maður upplifir það stundum að heimur listarinnar og listasaga er hliðstæður raunveruleiki sem er ekki hluti af raunveruleikanum eins og hann er núna.

Það er orðatiltæki sem segir: Þegar vopnin glymja þagnar listin. Tilurð hennar má rekja til orða Cicero þó að hún hafi einnig verið notuð af öðrum síðar. Hugmyndin er að meðan stríð geisar hnignar listin. Við sjáum skýrt dæmi um þetta frá Maríupol sem Rússar eru nú að gjöreyðileggja, líkt og þeir gerðu með Aleppo í Sýrlandi áður. Nú er sagt að Rússar hafi líka notað þar efnavopn gegn varnaraðilum borgarinnar og sagði borgarstjórinn að yfir 10 þúsund manns hafi fallið síðan innrás Rússa hófst.

Maríupol var upphaflega stofnuð af Grikkjum og áður en stríðið braust út var þar stórt samfélag Grikkja. Í borginni var safn sem nefnt var eftir úkraínska listamanninum Arkip Kuindzhi, en hann er af grískum ættum. Hann málaði margar myndir af landslagi hér í Úkraínu og hlaut fyrir alþjóðlega athygli. Hann þurfti að læra myndlist í Pétursborg, en á þeim tíma gátu myndlistamenn aðeins starfað sem slíkir hefðu þeir hlotið menntun í Pétursborg. Þetta er meðal annars ein ástæðan fyrir því að Rússar kalla alla listamenn rússneska ef þeir lærðu þar, þó þeir komi frá öðrum löndum. En núna eru Rússar búnir að eyðileggja safnið sem nefnt er eftir Kuindzhi.

Ein af myndum grísk-úkraínska listmálarans Arkip Kuindzhi. eins og flestar …
Ein af myndum grísk-úkraínska listmálarans Arkip Kuindzhi. eins og flestar aðrar myndir hans sýnir hún úkraínskar sveitir eða landslag.

 

Þegar safnið var eyðilagt voru ekki lengur neinar myndir eftir Kuindzhi þar heldur aðeins afrit. Hins vegar var þar fjöldi verka eftir aðra góða listamenn, meðal annars Ívan Aivazovskí, sem er úkraínskur en með armenískan bakgrunn. Rússarnir reyndu einnig að tala um hann sem rússneskan listamann, en á Krímskaga er safn með verkum hans og eftir hertöku þeirra á Krímskaga fóru Rússar að upphefja verk hans.

Stríð geta hins vegar ekki útrýmt list og stríð hefur oft þau áhrif að ýta undir listir og verk listamanna síðar meir. Strax og innrás Rússa hófst fóru að birtast verk eftir nokkra listamenn, eins og Nikita Titov sem málaði mynd sem sýndi Maríupol undir vernd Maríu meyjar frá árás Rússa. Þannig að þrátt fyrir allt þagnar listin ekki á stríðstímum.

Sergei í Lvív

Fertugasti og áttundi dagur stríðsins. Eftir stuttan dag á skrifstofunni fór ég heim til að vinna að nokkrum þýðingum og svo horfði ég á heimildarmyndir. Ég er orðinn mjög þreyttur á þessu kalda veðri, en það hefur ekki verið svona kalt í apríl í mörg ár. Í kvöldfréttunum var sagt frá því að Úkraínumenn hefðu handsamað þekktan svikara sem hafði verið í stofufangelsi í byrjun stríðsins, en náð að flýja. Ég vona að hann verði fangelsaður í langan tíma, en hann er náinn samstarfsmaður Pútíns þannig að hann hefur framið alvarlega glæpi.

Á morgun fer ég í aðra jarðarför. Það er mjög erfitt að ná utan um að nokkrir vinir manns séu þegar fallnir út af þessu stríði og að maður muni aldrei hitta þá á ný. Vil ekki hugsa til þess hversu margir til viðbótar verði fórnarlömb stríðsins.

Ég las annars mjög slæmar fréttir um framtíð efnahags Úkraínu. Það verða líklega strembnir tíma framundan og ég á hreinlega erfitt með að útskýra hvernig mér líður þessa stundina. Öll plön um framtíðina eru í óvissu. Þakka þér Rússland fyrir þessa „gjöf“ um „framtíð“ landsins okkar.

Staðan: Sakna gömlu góðu daganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert