Bandaríkin munu senda hergögn að virði 800 milljón dollara, eða um 103 milljarða íslenskra króna, til viðbótar til Úkraínu til þess að aðstoða við stríðið gegn Rússum.
New York Times greinir frá því að Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti Volodymír Selenskí Úkraínuforseta þetta í dag í klukkustundar löngu símtali.
Í yfirlýsingu sagði Biden að aðstoðin innihéldi vopn sem eru sérsniðin fyrir yfirvofandi víðtæka árás Rússa í austurhluta Úkraínu.
Þá lofaði Biden að styðja áfram Úkraínumenn.
„Ég fullvissaði Selenskí um að bandaríska þjóðin muni halda áfram að standa með hugrökku úkraínsku þjóðinni í baráttu þeirra fyrir frelsi.“