Fleiri jarðarfarir

Félagar Taras úr hernum fjölmenntu í jarðarför hans í gær.
Félagar Taras úr hernum fjölmenntu í jarðarför hans í gær. Ljósmynd/Sergei

Sergei kvaddi í gær annan vin sinn með aðeins nokkurra daga millibili, en báðir féllu þeir á víglínunni í átökum við rússneska innrásarliðið. Karíne segir okkur frá áframhaldandi árásum Rússa á næst stærstu borg landsins, en auk þess beinir hún sjónum sínum að því sem gæti tekið við þegar stríðinu lýkur og mögulegri uppbyggingu.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Miðvikudagur 13. apríl

Sergei í Lvív

Fertugasti og níundi dagur stríðsins. Aftur jarðarför. Aftur fjöldi syrgjandi vina og kunningja. Mikið óska ég þess að þurfa ekki að gera þetta aftur og að fólk þurfi ekki að safnast saman undir þessum kringumstæðum. Vinur minn Taras var jarðaður í næstu gröf við Júrí. Furðuleg tilviljun. Þeir voru góðir vinir fyrir stríð en voru á mismunandi stað á víglínunni og létust með nokkurra daga millibili.

Við hin munum gera okkar besta til að heiðra minningu þeirra, lifa eftir þeim gildum sem þeir höfðu í hávegum og passa upp á að fórn þeirra hafi ekki verið að ástæðulausu.

Að segjast vera Úkraínumaður fyllir mann í dag stolti. Óvinir okkar munu deyja og við munum halda áfram að lifa í frjálsu landi. Ég trúi þessu eins og þúsundir annarra sem berjast til að verja landið okkar. Hetjur munu aldrei deyja í minningunni.

Fjöldi manns var samankominn í jarðarförinni.
Fjöldi manns var samankominn í jarðarförinni. Ljósmynd/Sergei

Karíne í Karkív

Á síðustu dögum hafa Rússar haldið uppi linnulausum stórskotaliðsárásum á íbúðahverfi hér í Karkív. Mjög háværar sprengingar heyrast bæði dag og nótt og stór reykjastrókur með dökkum reyk var sýnilegur seinni partinn í dag. Rússar halda því áfram að drepa Úkraínumenn.

Eftir því sem líður á þessi átök koma alltaf fram fleiri og fleiri einkenni þjóðarmorðs og jafnvel hafa borist fregnir af því að Rússar hafi sótt munaðarlaus börn og flutt til Rússlands. Það er ekkert annað en mannrán.

Allt sem Rússar gera er sýnilegt heimsbyggðinni og þetta er fyrsta stríð þeirra þar sem stríðsglæpir þeirra koma strax í ljós í gegnum ýmiss konar miðla og samskipti. Þeir reyna að fela blóðbaðið í Maríupol, en glæpir þeirra munu alltaf koma í ljós.

Þrátt fyrir að Rússar haldi áfram að eyðileggja borgina okkar þá er fólk hér þegar farið að huga að enduruppbyggingu. Borgarráð Karkív upplýsti meðal annars um að margverðlaunaður breskur arkitekt að nafni Norman Foster hefði samþykkt að hjálpa til við endurbyggingu borgarinnar eftir stríðið. Meðal verka hans eru t.d. Gherkin-turninn í London, Millau Viaduct brúin í Frakklandi og endurgerð þinghússins í Berlín. Þá hefur hann einnig unnið að hönnun nýrra höfuðstöðva Apple í Bandaríkjunum og HSBC byggingarinnar í Hong Kong.

Ég, maðurinn minn og dóttir okkar ferðuðumst víða um Evrópu árið 2005 og keyrðum meðal annars yfir Millau Viaduct brúnna, en ég hafði sérstaklega viljað fara þangað þegar við vorum að leggja drög að ferðaplaninu.

Ljósmynd frá árinu 2005 þegar Karíne og fjölskylda hennar ferðuðust …
Ljósmynd frá árinu 2005 þegar Karíne og fjölskylda hennar ferðuðust um Evrópu og óku meðal annars yfir Millau Viaduct brúnna í Frakklandi. Ljósmynd/Karíne

Það er einnig mikið af mjög hæfileikaríkum arkitektum og listamönnum í Karkív og ég er viss um að þeir munu hjálpa mikið við að byggja upp borgina okkur aftur, sem og aðrar borgir hér í Úkraínu. Við þurfum hins vegar fyrst að klára að frelsa úkraínsk svæði undan herorki Rússa og ná aftur Krímskaga og hernumdu svæðunum í Luhansk og Donetsk héruðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert