Fimm milljónir á flótta frá Úkraínu

Flóttamenn frá Úkraínu við pólsku landamærin í síðasta mánuði.
Flóttamenn frá Úkraínu við pólsku landamærin í síðasta mánuði. AFP/DANIEL LEAL

Tala flóttamanna frá Úkraínu er komin yfir fimm milljónir frá því Rússar réðust inn í landið 24. febrúar síðastliðinn samkvæmt tölum frá flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í dag. Fjöldi flóttamanna hefur aukist um tæplega 60 þúsund frá því í gær

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sagði að 4.796.245 milljón Úkraínubúar hefðu flúið yfir landamærin. Ofan á þá tölu bætast nærri 215 þúsund íbúar í Úkraínu frá þriðja heiminum sem eru annað hvort nemendur eða farandverkamenn, en hafa ekki heimilisfesti í Úkraínu né nærliggjandi löndum. 

 Flestir flóttamannanna hafa flúið til Póllands, eða 2,7 milljónir manna, eða sex af hverjum tíu. 725 þúsund hafa farið til Rúmeníu. 

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að 645 þúsund hafi flúið frá Úkraínu í febrúar, 3,4 milljónir flúið landið í marsmánuði og meira en 760 þúsund flúið landið það sem af er apríl. Konur og börn eru 90% flóttamannanna, en karlmenn á aldrinum 18-60 ára hafa orðið eftir til að berjast í stríðinu.

Nærri tveir þriðju allra barna í Úkraínu hafa þurft að flýja heimili sín vegna stríðsins, og er þá talið með þau börn sem eru enn í Úkraínu. Talið er að 7,1 milljónir manna hafi þurft að yfirgefa heimili sín en séu enn í landinu.

Fyrir innrásina var fólksfjöldi Úkraínu 37 milljónir, fyrir utan svæði Krímskagans undir stjórn Rússa og svæði í Donbas undir stjórn aðskilnaðarsinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert