Kína þarf að gjalda fyrir að „styðja við innrás Rússa í Úkraínu“, að sögn Lindsey Graham, öldungardeildarþingmanns Bandaríkjanna.
Graham, sem lengi vel hefur verið þekktur fyrir sína háværu gagnrýni á Pekingstjórnina, er nú staddur í Tævan í opinberri heimsókn sendinefndar sem hann leiðir. Hét hann því að Washington myndi halda áfram að styðja sjálfstæði eyjarinnar.
Pekingstjórnin hefur þegar svarað sendinefnd Grahams og hótað „hörðum aðgerðum“. Einnig hefur kínverski herinn gefið það út að hafa sviðsett heræfingar í grennd við Tævan.
Kína hefur aldrei haft bein yfirráð yfir lýðræðisríkinu Tævan en álítur eyjuna sem sitt yfirráðasvæði.
Innrás Rússa í Úkraínu, sem Kínverjar hafa neitað að fordæma, hefur vakið upp óróleika í Tævan um að einn daginn muni Kínverjar fylgja fordæmi Rússa og ráðast inn í landið.
Á fundi með Tsai Ing-wen, forseta Tævan, sagði Graham að Bandaríkin myndu standa með sínum gildum og standa með Tævan.
„Að segja skilið við Tævan myndi jafngilda því að segja skilið við lýðræði og frelsi,“ sagði hann við forsetann.