Þingmenn krefjast náðunar Melissu Lucio

Hér leiðir Melissa Lucio bænastund með hópi þingmanna í Gatesville …
Hér leiðir Melissa Lucio bænastund með hópi þingmanna í Gatesville fangelsinu í Texas. AFP

21 þingmaður í öldungadeild Texas í Bandaríkjunum hefur skrifað undir lista þar sem krafist er að Melissa Lucio verði náðuð eða aftöku hennar verði frestað.

Þetta kemur fram í bréfi öldungadeildarinnar til David Gutierrez, sem stýrir náðunar- og skilorðsmálum í Texas-ríki.

Var sakfelld fyrir morð á eigin dóttur árið 2007

Lucio er 53 ára gömul fjórtán barna móðir sem bjó við sára fátækt í Texas. Í febrúar 2007 lést tveggja ára dóttir hennar, en hún vaknaði ekki af síðdegisblundi. Hún var marin víða um líkamann og var Lucio, móðir hennar,  handtekin tveimur klukkustundum eftir andlát barnsins.

Fimm lög­reglu­menn yf­ir­heyrðu hana og stóðu yf­ir­heyrsl­urn­ar yfir í fimm til sjö klukku­stund­ir. Lucio neitaði ít­rekað að hafa lagt hend­ur á dótt­ur sína en að lok­um sagði hún: „Ætli ég hafi ekki gert þetta þá, ég ber á­byrgð á þessu.“

Læknisálit leiddi þó í ljós að barnið hefði að öll­um lík­ind­um lát­ist úr heilaskaða. Annað barn Mel­issu sagði frá því í vitn­is­b­urði að syst­ir þess hefði dottið niður bratt­ar tröpp­ur tveim­ur dög­um áður. Kom það heim og sam­an við álykt­un lækn­anna um að af­leiðing­ar heilaskaðans hafi komið fram seinna.

Árið 2008 var Lucio sak­felld fyr­ir morð en að baki sak­fell­ing­unni lá um­rædd játn­ing úr yf­ir­heyrsl­unni. Hlaut Mel­issa dauðadóm. Hún hafði aldrei orðið upp­vís að of­beldi og skýrsl­ur af börn­um henn­ar bentu ekki til þess að hún hefði nokk­urn tíma beitt þau of­beldi.

Ný sönnunargögn hafa uppgötvast í málinu

Í bréfi sínu hvetja öldungadeildarþingmennirnir Gutierrez til þess að fá Greg Abott, ríkisstjóra Texas, til að annað hvort náða Lucio, milda dóm hennar eða fresta aftöku hennar sem á að fara fram 27. apríl næstkomandi.

Benda þeir m.a. á að ný sönnunargögn hafi komið fram í máli Lucio sem bendi til þess að dóttir hennar, Mariah, hafi látist af slysförum en ekki af hendi móður sinnar. Með náðun eða frestun aftöku myndu lögfræðingar Lucio fá þann tíma sem þeir þurfa til að yfirfara gögn sem gætu nýst til að sanna sakleysi hennar.

„Ríkinu ber skylda til þess að tryggja að saklaus manneskja sé aldrei tekin af lífi. Skortur á sönnunargögnum sem benda til þess að Lucio hafi myrt dóttur sína ætti að duga til þess að fresta aftöku hennar,“ segir í bréfi þingmannanna.

Þar að auki telja þeir þá lögfræðiaðstoð sem Lucio hlaut í réttarhöldum vegna málsins hafa verið ófullnægjandi og að stórkostlegt misræmi hafi verið í dómsuppkvaðningu Lucio og eiginmanns hennar, sem var einnig ábyrgur fyrir umönnun Mariuh. Það veki upp efasemdir um sanngirni og jafnrétti í málaferlinu gegn Lucio.

„Ólíkt Lucio, sem er þolandi heimilisofbeldis og á sér enga sögu um að hafa beitt aðra ofbeldi, hefur eiginmanni hennar, sem á sér sögu um árásargjarna hegðun, verið sleppt úr haldi eftir að hafa afplánað fjögurra ára dóm fyrir að stofna barni í lífshættu.“

Að minnsta kosti 573 fangar hafa verið teknir af lífi …
Að minnsta kosti 573 fangar hafa verið teknir af lífi í Texas-ríki síðan árið 1976. AFP

Segja fjölskylduna hafa þurft að þola nóg

Loks segja þeir Lucio mikilvægan stuðningsaðila fjölskyldu sinnar og annarra sem eru í kringum hana. Hún sé trúrækinn kaþólikki sem sæki reglulega messur og hafi stofnað biblíuhóp á dauðadeildinni þar sem hún haf kynnt öðrum föngum fyrir Kristi.

„Í ljósi þess teljum við að aftaka Lucio muni ekki ná fram réttlæti fyrir Mariuh. Þvert á móti mun hún valda meiri þjáningu fyrir systkini hennar, ömmu, föður, frænkur og frændur sem vilja ekki missa enn annan ástvin sinn. Náðun eða í það frestun á aftöku Lucio myndi koma í veg fyrir aukna þjáningu fjölskyldunnar sem hefur þegar þurft að ganga í gegnum gríðarlega mikla erfiðleika.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert