400 látnir og tugir þúsunda misst heimili sín

Um er að ræða einn „banvænasta storm í manna mynnum“.
Um er að ræða einn „banvænasta storm í manna mynnum“. AFP

Sú mikla úrkoma sem hefur verið í Suður-Afríku undanfarið hélt áfram í dag en úrhellisrigning hefur valdið miklum skaða síðustu daga í austanverðu landinu.

Nær 400 manns hafa látið lífið og tugir þúsunda eru heimilislaus í kjölfar flóða og aurskriða af völdum rigningarinnar og er talið að um sé að ræða einn „banvænasta storm í manna minnum“.

Hafnarborgin Durban hefur komið einna verst út úr storminum en flóðin hafa sópað burtu skólum, spítölum og heimilum fólks ásamt þeim sem þar búa. Fjöldi fólks er fast innan heimila sinna og bíður og vonar að storminn lægi.

Björgunarsveitir í suðaustur KwaZulu-Natal-héraðinu (KZN), þar sem Durban-borg er staðsett, voru viðbúin úrkomunni en spáð var enn meiri rigningu um helgina.

Minni úrkoma en þó von á flóðum

Í tilkynningu frá yfirvöldum landsins sagði að tala látinna hefði farið stöðugt hækkandi og stæði nú í 398, auk þess sem 27 manns væri enn saknað. Þá hafa 58 spítalar og aðrar klínískar stofnanir orðið fyrir alvarlegum skemmdum.

Björgunaraðgerðir og mannúðaraðstoð er því í fullum gangi, en um 3,5 milljón manns búa í borginni.

Hér má sjá fólk sem misst hefur heimili sín í …
Hér má sjá fólk sem misst hefur heimili sín í kjölfar flóða og aurskriða í Ntuzuma-bænum, norðan við Durban. Tugir þúsunda hafa misst heimili sín síðustu daga. AFP

„Það er þegar byrjað að rigna í sumum hlutum KZN-héraðsins en úrkoman verður ekki eins mikil og hún var síðustu daga,“ sagði Puseletso Mofokeng, veðurfræðingur hjá opinberu veðurstofu Suður-Afríku, í samtali við fréttaveituna AFP.

„En þar sem jarðvegurinn er þegar orðinn gegndræpur af vatni þá er enn mikil hætta á flóðum.“

Tugir þúsunda hafa misst heimili sín síðustu daga.
Tugir þúsunda hafa misst heimili sín síðustu daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert