„Ég er búinn að sjá svo mikinn viðbjóð“

Óskar Hallgrímsson býr í Kænugarði og segir þar lífið færast nær því sem var fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Hann óttast að verstu hörmungarnar séu ekki komnar upp á yfirborðið og stríðið eigi enn eftir að versna.

„Kænugarður er fyrst núna að lifna við. Það er komin umferð og fólk á götunum, kaffihús og veitingastaðir og annað eru að opna hægt og rólega,“ segir Óskar í samtali við mbl.is.

Óskar og konan hans eru með vinnustofu fyrir listsköpun sína í Úkraínu, en ljósmyndastarf hans hefur eðlilega verið fyrirferðamikið vegna stríðsins.

Óskar tók þessa mynd á leiðinni til Boródíanka.
Óskar tók þessa mynd á leiðinni til Boródíanka. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Breyttur veruleiki

Er þitt daglega líf að komast í gang?

„Lífið mitt er aldrei að fara að verða eitthvað „daglegt“ aftur en við erum farin að vinna aftur í vinnustofunni þá daga sem ég er ekki að mynda.“

Rússar byrjuðu innrásina víðs vegar um Úkraínu, þar á meðal við Kænugarð, en virðast nú leggja meiri áherslu á hernað í Donbas héruðunum.

„Lífið er ekki beint að færast í sinn vanagang, en er eitthvað að fara að róast.“

Eyðilegging Rússa í Úkraínu er gífurleg.
Eyðilegging Rússa í Úkraínu er gífurleg. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Kaflaskipti í stríðinu

Óskar segir að það sé risastór söfnun rússneskra hermanna í norður Úkraínu og blikur séu á lofti að áherslubreytingar séu framundan hjá yfirvöldum í Kreml. 

„Það eru þessi kaflaskipti í stríðinu og það eru allir að bíða eftir því hvernig það verður. Því lengur sem við bíðum, því betur í stakk búinn eru Úkraínumenn að verjast.“

Daglega koma heilu flugfarmarnir af þungvopnum frá Bandaríkjunum til Póllands, sem eru þaðan flutt til Úkraínu.

„Stríðið um Donbas er kannski að byrja. Það verður mikið meira stríð.“

Óskar Hallgrímsson.
Óskar Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

 Versta ekki komið á yfirborðið

„Ég er búinn að sjá svo mikinn viðbjóð. Maður er orðinn svolítið lúinn af þessu öllu saman.“ 

„Stríðið er alveg komið út úr því að vera eitthvað hernaðarlegt. Markmiðið núna virðist vera að leggja eins mikið við jörðu og þeir mögulega geta.“

Óskar segir raunverulega ekkert komið í ljós af glæpum Rússa. Fjöldagrafirnar sem fundust í Bútsja séu líklega smávægilegar miðað við það sem eigi eftir að finnast í borgum eins og Kerson, sem eru mikið stærri og fjölmennari.

„Samkvæmt gervihnattamynd sem ég sá er fjöldagröf fyrir utan Kerson, sem bara stækkar og stækkar,“ segir Óskar.

Kerson var hertekin þriðja mars og er enn í höndum Rússa, því ríkir óvissa um líf og heilsu borgara þar.

Kemur verst niður á þeim sem minnst hafa

Þó flóttamannastraumur frá Úkraínu sé sá mesti í Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöld eru ekki allir sem geta flúið.

„Fólk sem hefur eitthvað á milli handanna hefur frekar efni á að fara til dæmis til Póllands,“ segir Óskar.

Fólk sem hefur minni tekjur eða á erfitt með að ferðast vegna heilsu verður frekar fyrir árásum Rússa í borgum eins og í Maríupol, samkvæmt Óskari.

Óskar segist vera búinn að sjá mikinn viðbjóð vegna stríðsins …
Óskar segist vera búinn að sjá mikinn viðbjóð vegna stríðsins í Úkraínu. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert