Ökumenn rússneskra vörubíla í klandri

Ökumenn rússneskra og hvítrússneskra vörubíla flýta sér nú heim. Myndin …
Ökumenn rússneskra og hvítrússneskra vörubíla flýta sér nú heim. Myndin er ekki af röðinni sem um ræðir í fréttinni. AFP

Löng biðröð vörubíla hefur myndast á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Rússneskir og hvítrússneskir bílstjórar reyna nú að yfirgefa yfirráðasvæði Evrópusambandsins vegna refsiaðgerða þess. 

Röðin er um 80 kílómetra löng og hafa einhverjir bílstjórar verið fastir í henni í 33 klukkutíma. 

BBC greinir frá.

Geta lagt hald á bílana

Evrópusambandið hefur bannað vörubílum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi að dvelja á yfirráðasvæði sínu og urðu bílstjórar bílanna að koma þeim burt í gær. Bannið nær ekki til bíla sem flytja lyf, póst eða olíuvörur.

Þessum aðgerðum er beitt af hálfu Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Óljóst er hvað verður um þá vörubíla sem enn eru á yfirráðasvæði sambandsins. Einn möguleiki er sá að innlend yfirvöld leggi hald á þá.

Pólskur embættismaður hefur lýst yfir áhyggjum af því að slík ráðstöfun geti leitt til svipaðra aðgerða gegn pólskum vörubílum sem ferðast um Rússland og Hvíta-Rússland á leiðinni heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert