Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) rannsakar nú morgunkornið Lucky Charms eftir að fjöldi kvartana barst um veikindi barna í kjölfar þess að hafa borðað morgunkornið.
Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar AP.
Eftirlitsstofnunin hefur gefið út að henni hafi borist yfir hundrað kvartanir tengdar Lucky Charms það sem af er ári.
„FDA tekur hverri kvörtun alvarlega um hugsanlega spillt matvæli, ekki síst þeim sem geta valdið veikindum eða meiðslum,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.
Þá hafa nokkur hundruð manns sent inn ábendingar á heimasíðuna iwaspoisoned.com þar sem heiti síðunnar bendir til að eitrað hafi verið fyrir fólki. Þar lýsa kvartendur ógleði, niðurgangi og uppköstum sem afleiðingum þess að leggja sér Lucky Charms til munns.
Forsvarsmenn General Mills Inc., framleiðanda Lucky Charms ásamt Cheerios og annars morgunkorns, segjast meðvitaðir um kvartanirnar sem þeir taki alvarlega. Þeirra eigin innri rannsókn hafi þó ekki leitt í ljós neinar sannanir á tengslum veikinda og neyslu á Lucky Charms.