50 þúsund manns sofa í sama rými

Fólk í sóttvarnabúning að flytja mat til íbúa Sjanghæ.
Fólk í sóttvarnabúning að flytja mat til íbúa Sjanghæ. AFP

Beibei sefur við hlið þúsundum ókunnugra í risastóru vöruhúsi. Ljósin eru kveikt allan sólarhringinn og hin 30 ára gamla Beibei hefur enn ekki fundið heita sturtu. 

AP-fréttaveitan greinir frá þessari upplifun Beibei en hún og eiginmaður hennar eru í einangrun í vöruhúsinu í Sjanghæ-borg í Kína eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. Tveggja ára dóttir þeirra fór til afa síns á meðan hjónin klára tíu daga einangrun.

Í vöruhúsinu eru 50 þúsund rúm en um 100 slík hús eru í Sjanghæ fyrir fólk líkt og Beibei sem hefur greinst jákvætt en hefur ekki einkenni. 

Sjanghæ-borg glímir nú við mestu útbreiðslu veirunnar síðan faraldurinn hófst. Útgöngubann ríkir fyrir flesta af 25 milljón íbúa borgarinnar sem þurfa allir að fara í sýnatöku. 

Allir sem greinast jákvæðir þurfa að fara í einangrun líkt og Beibei í eina viku.

Verið er að setja upp brágðabirgðasjúkrahús í borginni.
Verið er að setja upp brágðabirgðasjúkrahús í borginni. AFP

23.460 tilfelli á öllu meginlandi Kína

„Í byrjun var fólk skelkað og hrætt. En eftir að smittölur hvers dags komu út er fólk að átta sig á því að þessi veira er ekki hræðileg,“ sagði Beibei en hún mun að öllum líkindum losna úr einangrun í dag.

Hitastig fólks er mælt tvisvar á dag og fólk er hvatt til að lýsa einkennum sínum í gegnum app í símanum.

Í gær greindust 23.460 á öllu meginlandi Kína, einungis 2.742 höfðu einkenni. 95% tilfella greindust í Sjanghæ.

Um 300 þúsund tilfelli hafa greinst í borginni frá lok mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert