Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sakaði Rússa um að vilja eyðileggja allt Donbas-hérað sem staðsett er í austurhluta landsins. Síðustu hersveitirnar í hafnarborginni Maríupol undirbúa sig nú fyrir síðasta slaginn en rússneskar hersveitir hafa verið að herða árásir sínar.
Samkvæmt rússneskum stjórnvöldum hefur borgin þegar fallið í hendur Rússa en Denys Shmyhal forsætisráðherra Úkraínu tekur þó ekki undir þá yfirlýsingu.
Ástandið í Maríupol hefur verið afar slæmt síðustu vikur þar sem ekkert rennandi vatn eða rafmagn er til staðar. Úkraínsk yfirvöld hafa heitið því að berjast áfram og verja borgina til endaloka.
Rússar hafa nú kallað eftir því að síðustu úkraínsku hermennirnir, sem eru staðsettir í Azov stálverksmiðjunni sem búið er að umkringja, leggi niður vopn sín og gefist upp.
Úkraínsk yfirvöld hafa hvatt íbúa til að yfirgefa Donbas-héraðið og fara vestur til að flýja umfangsmikla sókn Rússa. Talið er að þeir vilji hertaka Donetsk og Luhansk og skapa þar með landbrú milli Rússlands og Krímskaga.
„Rússneskir hermenn eru að undirbúa sókn í austurhluta landsins okkar á næstunni. Þeir vilja eyða Donbas,“ sagði Selenskí í yfirlýsingu.