Hjálpsemi í stríðsástandi

Nika leikur við hundinn í skóginum í dag en hundurinn …
Nika leikur við hundinn í skóginum í dag en hundurinn hefur braggast mjög. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og myndlistarmaður, heldur áfram að mynda mannlífið í Úkraínu en hann býr í Kænugarði eins og fram hefur komið. 

Ferfætlingarnir verða fyrir barðinu á stríðsrekstri eins og mennirnir en gleymast þó ekki í Úkraínu. Óskar fór um daginn til Bútsja þar sem hundum var bjargað og farið með þá í skýli fyrir heimilislausa hunda í Kænugarði sem kallast Dvornyashkam Dom. Óskar varð vitni að því þegar stúlka að nafni Nika bjargaði hundi sem var illa á sig kominn. Í dag heimsótti hann skýlið þar sem hundurinn er enn og dafnar vel að því er virðist. 

„Ég heimsótti þann hluta þar sem hundar eru en þarna eru einnig tuttugu og fimm kettir. Þarna voru sextíu hundar en öll þessi dýr hafa komið eftir að stríðið hófst. Áður voru þarna aðrir sextíu hundar en farið var með þá til Evrópu. Þetta er bara ein bygging og lítið skýli þannig séð en það eru fleiri skýli í notkun fyrir dýr frá svæðunum í kringum Kænugarð. Þau eru öll yfirfull af dýrum. Fólk hefur í mörgum tilfellum skilið dýrin eftir og ekki viljað ferðast með þau en einnig hafa eigendur dýranna verið drepnir eins og í Bútsja. 

Hundarnir sýndu myndavélinni nokkurn áhuga.
Hundarnir sýndu myndavélinni nokkurn áhuga. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Um daginn fór ég með í leiðangur til Bútsja þar sem við björguðum dýrum og gáfum þeim að borða. Þá tókum við einn hundinn með okkur til baka og stelpurnar fóru með hann í skýlið. Mig langaði að fara og sjá hundinn. Hann var enn í skýlinu og við fórum með hann út að ganga. Hann er ekki búinn að ná sér 100% en er mikið betur í holdum. Í raun var allt annað að sjá hundinn miðað við þegar við björguðum honum enda hafði hann þá tæplega fengið að borða í þrjár vikur.  Ég fékk því tækifæri til að mynda hann núna ásamt Niku, stelpunni sem bjargaði honum,“ sagði Óskar en um er að ræða góðgerðastarf og er skýlinu haldið á gangandi með frjálsum framlögum. 

Óskar segir að draga megi vissar ályktanir af fjölda gæludýra í þessum skýlum. 

„Mér finnst þetta segja svolítið margt. Þetta segir manni hvernig ástandið og örvæntingin hefur verið fyrstu dagana eftir að innrásin hófst því fólk hefur flúið frá dýrunum sínum. Einnig sýnir þetta okkur að gæludýrin voru skilin eftir þegar eigendurnir voru drepnir. Svo segir þetta okkur að í miðju stríðsástandi er hjálpsemin mikil.

Sjálfboðaliðar mættu í skýlið til að fara með hundana í …
Sjálfboðaliðar mættu í skýlið til að fara með hundana í heilsubótargöngu. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Þarna var röð af sjálfboðaliðum sem komu til að fara með hundana út að ganga og leyfa þeim að hreyfa sig aðeins. Þetta segir ýmislegt um stöðuna í Úkraínu. Um dauðann og stríðið en einnig hjálpsemina,“ sagði Óskar Hallgrímsson þegar mbl.is ræddi við hann í dag og hann bendir á að fólk hafi sýnt mikið hugrekki þegar barist var við höfuðborgina Kænugarð. 

Skýlið sé nefnilega staðsett við varnarlínuna þar sem baráttan um Kænugarð lauk. Irpin-línan sé einungis um nokkra kílómetra frá skýlinu. Þegar stríðið var í fullum gangi hafi fólk engu að síður lagt sig í hættu til að sinna dýrunum, í miðri stórskotahríð ef því var að skipta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert