„10 óvinir“ á móti hverjum úkraínskum hermanni

Loftmynd af Asovstal.
Loftmynd af Asovstal. AFP

Um 2.000 manns, bæði óbreyttir borgarar og hermenn, eru fastir í Asovstal-orkuverinu í Maríupol í Úkraínu. Rússneskir hermenn sitja um verið og segir úkraínskur liðsforingi á svæðinu að hans menn sjái fram á að þeir eigi einungis nokkra daga, eða jafnvel einungis klukkustundir, eftir ólifaða.

„Það eru 10 óvinir á móti hverjum okkar,“ sagði liðsforinginn, Serhí Volina.

„Við biðjum alla leiðtoga heimsins um að hjálpa okkur. Við biðjum þá um að flytja okkur til óháðs ríkis.“

Ráðgjafi borgarstjórans í Maríupol lýsti ástandinu í verinu sem „hræðilegu“ og sagði allt að 2.000 manns vera þar án undankomuleiðar. Hann sagði að þar væru aðallega konur og börn og að fólkið væri án nægjanlegra vatns- og matarbirgða. Þá skorti fólkið einnig frískt loft. 

„Úkraínski fáninn blaktir yfir borginni“

Stórsókn Rússa í Donbas-héruðunum hófst fyrir rúmum sólarhring síðar en stjórn yfir svæðinu, sem og suðurhluta Maríupolar, myndi gera rússneskum hersveitum kleift að skapa leið yfir til Krímskaga sem Rússland innlimaði árið 2014. Með því myndu rússneskar hersveitir svipta Úkraínu stórum hluta strandlengju landsins.

Eins og greint var frá í dag hafa Rússar lofað því að þeir úkraínsku hermenn í Maríupol sem leggi niður vopn fyrir klukkan 11 að íslenskum tíma fái að yfirgefa borgina með öruggum hætti. 

Æðstu yfirmenn hersins á svæðinu neita að gefast upp. Í viðtali við CNN í gær sagði Pavló Kírilenkó, yfirmaður hersins í Donetsk-héraði, að Úkraína myndi halda áfram að standa vörð um Maríupol. 

„Úkraínski fáninn blaktir yfir borginni,“ sagði hann. „Á ákveðnum svæðum er enn barist á götum úti. Ég get ekki sagt að Rússar stjórni þeim.“

Herþotur frá Vesturlöndum

Úkraína fékk nýlega herþotur frá Vesturlöndum til þess að verjast gegn innrás Rússa. Bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessu í dag en neitaði að svara því hvaðan vélarnar kæmu og hversu margar þær væru.

Stjórnvöld í Kænugarði höfðu áður beðið Vesturlönd um MiG-29 vélar sem herflugmenn þeirra kunna nú þegar að fljúga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert