Biskupsdæmi í bandaríska ríkinu New Jersey hefur samþykkt að greiða 87,5 milljónir bandaríkjadala, eða um 11 milljarða króna, vegna mörg hundruð mála sem tengjast ásökunum um kynferðisbrot.
Þetta er ein stærsta sátt sem náðst hefur sem tengist kaþólsku kirkjunni í Bandaríkjunum.
Samkomulagið náðist á milli biskupsdæmisins í Camden, skammt frá borginni Fíladelfíu, og 300 fórnarlamba kynferðismisnotkunar af hálfu presta á áttunda og níunda áratugnum.
Greiðslan er hærri en 85 milljóna dala greiðslan sem innt var af hendi árið 2003 þegar upp komst um kynferðisbrotamál tengd kaþólskum prestum í Boston. Hún er aftur á móti lægri en greidd hefur verið í ríkjunum Kaliforníu og Oregon, að sögn bandarískra fjölmiðla.
Samkvæmt vefsíðunni bisphop-accountability.org hafa aðeins fjórar sáttir farið yfir 100 milljónir dala frá því snemma á fyrsta áratug þessarar aldar.
Dennis Sullivan, biskup í Camden, bað öll fórnarlömbin einlæglegrar afsökunar og hét því að leggja sitt af mörkum til að tryggja að slík misnotkun eigi sér ekki stað á nýjan leik.
Biskupsdæmið lýsti yfir gjaldþroti árið 2020 og nefndi 56 presta ásamt djákna sem talið er að hafi misnotað börn.