„Fyrst og fremst pólitískar ofsóknir“

Kristinn Hrafnsson er ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson er ritstjóri Wikileaks. AFP

Dóm­stóll í Bretlandi hef­ur lagt fram form­lega fyr­ir­skip­un um að fram­selja Ju­li­an Assange, stofn­anda Wiki­Leaks, til Banda­ríkj­anna.

„Úrskurðurinn fer nú á borð innanríkisráðherra sem að ákveður hvort eigi að staðfesta úrskurðinn um að framselja Assange en þetta er ekkert búið. Á sama tíma hefst nýtt áfrýjunarferli þar sem aftur verður tekist á um öll þau atriði sem rætt var um í fyrri dómstigum,“ segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks í samtali við mbl.is.

„Það er að segja að draga það fram að þetta er ekki lögfræðilegt ádeiluefni sem þetta snúist um heldur fyrst og fremst pólitískar ofsóknir. Hann er pólitískur fangi.“

„Þessir snúningar sem eru hér í réttarsölum eru tafir, tilraun til að framlengja dvöl hans í fangelsi eins lengi og hægt er sem eru orðin núna þrjú ár sem gæsluvarðhaldsfangi í mesta öryggisfangelsi Bretlands.“

Pólitískir fangar séu ekki framseldir

Blaðamenn án landamæra hafa hafið undirskriftarherferð þar sem þau biðja ríkisstjórn Bretlands að framselja Assange ekki til Bandaríkjanna.

„Þetta er pólitísk ákvörðun hvort að verði framselt eða ekki og þau hafa það í valdi sínu að taka þetta út af borðinu og eiga að gera það ef þau ætla að uppfylla sínar skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum og framsalssáttmála síns eigin ríkis sem segir meðal annars að pólitískir fangar eru ekki framseldir. Assange er það vissulega, ekki bara að mati blaðamanna án landamæra heldur líka Amnesty international og fjölda annarra mannúðarsamtaka.“

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur fjórar vikur til að taka ákvörðun um örlög Julian Assange.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert