Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra átti fundi með háttsettum embættismönnum Bandaríkjanna í gær og í dag.
Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að meðal annars hafi verið rætt um samstarf Íslands og Bandaríkjanna, og hlutverk Íslands í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Þá var einnig rætt um áhrif innrásarinnar á öryggis- og varnarmál í Evrópu.
Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu í tilkynningu að hún meti vináttu við Bandaríkin mikilvæga, sérstaklega í ljósi innrásar Rússlands inn í Úkraínu.
„Eftir innrás Rússlands í Úkraínu finnum við því miður hversu nauðsynlegt það er að huga að öryggi og vörnum þjóðarinnar og taka ekki friði sem sjálfgefnum hluti. Varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu eru hornsteinar í okkar öryggisstefnu,“ segir Þórdís.
Þórdís Kolbrún ræddi við Victoriu Nuland aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær og í dag fundaði hún með dr. Colin Kahl aðstoðarvarnarmálaráðherra. Að sögn Þórdísar fann hún vel fyrir vináttu þjóðanna á fundum sínum.
„Bandaríkin eru náin og mikilvæg vinaþjóð okkar Íslendinga og milli okkar ríkir gagnkvæm virðing. Það finn ég vel á fundum með háttsettum embættismönnum hér í Washington.“
Viðbrögð Íslands og Bandaríkjanna við innrás Rússlands í Úkraínu voru meginviðfangsefni fundanna. Ræddi Þórdís til að mynda hlutverk Íslands í átökunum.
„Það er líka mikilvægt að við Íslendingar sem herlaus þjóð gerum allt sem við getum til þess að leggja okkar af mörkum til að styðja við vina- og bandalagsþjóðir okkar.“