Loftárás frá Rússum varð fimm manns að bana í hafnarborginni Odessa við Svarta hafið. Meðal hinna látnu er eitt barn, en auk látinna særðust átján manns í árásinni.
„Fimm Úkraínumenn myrtir og átján særðir. Það eru aðeins þeir sem okkur tókst að finna í rústunum. Það er líklegt að mannfallið sé miklu meira,“ sagði Andriy Yermak starfsmannastjóri úkraínska forsetaembættisins á samskiptamiðlinum Telegram í dag.
„Nýfætt barn, aðeins þriggja mánaða, er meðal þeirra sem létust.“
Fyrr í morgun hafði utanríkisráðherra Úkraínu, Dmítró Kúleba sagt: „Eini tilgangur Rússa með loftárásum á Odessa er að skapa hrylling og ótta.“ Haft var eftir talsmönnum úkraínska flughersins að náðst hefði að stöðva tvær TU-95 eldflaugar sem var skotið úr Kaspíahafi. En þeir hefðu ekki náð fjórum eldflaugum Rússa sem hefðu skotið á borgina.
„Tvær eldflauganna sprengdu upp hernaðarmannvirki en tvær sprengdu íbúabyggingu,“ var haft eftir úkraínska flughernum.
Úkraínska borgin Odessa er að mestu rússneskumælandi og mikil menningarmiðstöð í landinu. Rússar eru áður búnir að reyna að ná borginni á sitt vald, en hefur ekki tekist.