Reyna að koma fólki frá Maríupol

Úkraínskur hermaður skýtur á rússneska dróna.
Úkraínskur hermaður skýtur á rússneska dróna. AFP

Í dag verður aftur reynt að koma almennum borgurum frá hafnarborginni Maríupol, sem hefur verið í herkví í meira en mánuð.

Þrjár rútur fullar af úkraínsku flóttafólki komust út úr borginni á fimmtudag en Rússar hafa komið í veg fyrir að fleiri íbúar geti flúið borgina.

Vonir um vopnahlé yfir rétttrúnaðarpáskana hafa dvínað eftir að viðræður Rússa og Úkraínumanna hafa runnið út í sandinn.

Konur og börn dvelja í verksmiðju

Yfirvöld í Rússlandi segja Maríupol undir stjórn Rússa fyrir utan gríðar stóra stálverksmiðju þar sem úkraínskir hermenn og almennir borgara dvelja nú.

Vladimír Pútín hefur fyrirskipað hersveitum sínum að láta verksmiðjuna vera, og krefst þess að hermennirnir gefist upp. Í dag hafa úkraínsk stjórnvöld sagt að loftárásir á verksmiðjuna séu hafnar á ný.

Myndbönd frá verksmiðjunni sýna konur og börn sem segjast hafa dvalið í verksmiðjunni í tvo mánuði. Fréttastofa AFP hefur ekki staðfest myndbandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert