Smábók ungrar Charlotte Brontë í sölu

Pínulítil bók með ljóðum eftir Charlotte Brontë var sett í sölu í New York á fimmtudaginn. Bókin er frá árinu 1829 og er minni en lítill spilastokkur. Í henni eru tíu ljóð eftir Charlotte sem hún samdi þegar hún var þrettán ára. Söluverðið er litlar 1,25 milljónir dollara og er í sölu hjá Henry Wessels hjá James Cummins bókasölunni á Manhattan í New York, sem vinnur með Maggs Bros fyrirtækinu í London að sölunni.

Fannst falin í 19. aldar skólabók

Þetta er síðasta smábókin sem fundist hefur af þessari gerð, sem talið er að Bronte systkinin hafi búið til fyrir leikfangadáta sína og þykja bækurnar sýna ríkulegt ímyndunarafl systkinanna á heimilinu í Norður-England sem skilaði sér m.a. í ódauðlegum bókum Brontë-systranna, Jane Eyre eftir Charlotte og Fýkur yfir hæðir eftir Emily. Vitað er af öðrum sambærilegum bókum því í ævisögunni um Charlotte Brontë eftir Elizabeth Gaskell er talað um þessar handskrifuðu smábækur frá æsku skáldkonunnar.

AFP/TIMOTHY A. CLARY

Bókin er titluð „Book of Rhymes“ og er fimmtán blaðsíður. Hún fannst í einkasafni bandarísks safnara og var þar falin inni í umslagi í 19.aldar skólabók.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert