„Við getum stólað á Frakkland í fimm ár í viðbót“

Emmanuel Macron fagnar vísum sigri með stuðningsmönnum sínum í kvöld.
Emmanuel Macron fagnar vísum sigri með stuðningsmönnum sínum í kvöld. AFP

Leiðtogar ríkja Vesturlanda hafa hver í kapp við annan óskað Emmanuel Macron til hamingju með endurkjör sitt til embættis Frakklandsforseta. 

Macron sigraði andstæðing sinn Marine Le Pen með líklega um 58% akvæða í síðari umferð forsetakosninganna í kvöld. 

„Við getum stólað á Frakkland í fimm ár í viðbót,“ sagði Charles Michel, forseti Evrópuráðsins í færslu á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að Macron var spáð sigri, en Le Pen er yfirlýstur andstæðingur aukinna umsvifa Evrópusambandsins. 

„Ég er himinlifandi að fá að halda góðu samstarfi okkar áfram,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í skeyti til Macron.

Hlakka til áframhaldandi samstarfs

Olaf Scholz Þýskalandskanslari sagði franska kjósendur hafa lýst yfir stuðningi og trausti við Evrópu með niðurstöðunni. „Ég er ánægður með að fá að halda áfram samstarfinu,“ sagði kanslarinn. 

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði Frakkland vera „eitt af okkar nánustu og mikilvægustu bandalagsríkjum“.

Í tísti á Twitter sagðist Johnson hlakka til áframhaldandi samvinnu „í málefnum sem skipta löndin okkar tvö mestu máli“. 

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada tók í sama streng og kollegar sínir og sagðist hlakka til áframhaldandi samstarfs og varðvörslu lýðræðisins. 

Forsætisráðherra Ítalíu Mario Draghi sagði sigur Macron „frábærar fréttir fyrir Evrópu alla“. 

„Borgararnir hafa valið Frakkland sem er fylgjandi frjálsu, sterku og sanngjörnu Evrópusambandi. Lýðræðið vinnur. Evrópa vinnur. Til hamingju Emmanuel Macron,“ sagði Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar. 

Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu sagði franska kjósendur hafa valið „stöðugleika og upplýst gildi“ með niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert