Andrúmsloftið var þrungið á kosningavöku Emmanuel Macrons Frakklandsforseta við Eiffel-turninn í Parísarborg í kvöld. Ræða forsetans var sömuleiðis stutt og flestir fundu frekar fyrir létti en ánægju yfir úrslitum kvöldsins.
Macron er spáð sigri í úrslitaeinvígi forsetakosninganna með rúmlega 58% atkvæða. Árangurinn er að mati margra stuðningsmanna hans ekkert til að hrópa húrra yfir, enda sigraði hann sama andstæðinginn, Marine Le Pen, með 66% atkvæða fyrir fimm árum síðan.
„Ég held að hann átti sig á því að hann var ekki kjörinn með miklum meirihluta, sem er erfitt,“ sagði hin 25 ára Pauline Pavan við blaðamann AFP á kosningavökunni.
Í ræðu sinni í kvöld var Macron hógvær og viðurkenndi hann að fjölmargir Frakkar hefðu ekki kosið hann. Hét hann því að finna svör við reiði þeirra Frakka sem kusu frekar Le Pen.
„Þetta var miklu dapurlegra en 2017. Ég skynjaði að margir væru að halda aftur af sér. Ég persónulega bjóst við minni mun, jafnvel að hún (Le Pen) gæti unnið, svo að mér var létt umfram allt,“ sagði hinn 20 ára Luca Bouvais við blaðamenn og vísaði þar til kosningavöku Macron árið 2017.
„Mér er létt af því að ég hafði miklar áhyggjur,“ sagði Jackie Boissard, 60 ára gamall bankastarfsmaður. „Hann mun núna þurfa að taka alla með í reikninginn því það er mikið hatur í þessu landi.“
Á kosningavöku Macron viðurkenndu margir sem AFP ræddi við að þeir hefðu ekki kosið Macron í fyrri umferð forsetakosninganna heldur aðra frambjóðendur og að Macron hafi síðan verið skárri kostur en Le Pen í síðari umferðinni.
„Samfélagsleg stefnumál hans eru erfið. Ég skil af hverju margir kusu Le Pen,“ sagði Guillaume Ledun, sem kaus Macron ekki í fyrri umferð kosninganna.