Trump ætlar ekki að skrá sig á Twitter Musk

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segist ekki ætla að skrá sig aftur á Twitter þrátt fyrir að Elon Musk, for­stjóra Tesla, hefur keypt samfélagsmiðilinn. 

FoxNews greinir frá því að Trump ætli að halda áfram á sínum eigin samfélagsmiðli til þess að „segja sannleikann“.

Trump var bannaður á fjölda sam­fé­lags­miðla og hef­ur nú um nokk­urt skeið leitað leiða til að tengj­ast stuðnings­mönn­um sín­um á net­inu.

Samfélagsmiðill hans, Truth Social, fór á markað í síðasta mánuði og sagði Trump að umræðan á miðlinum væri mun betri en á Twitter.

„Ég vona að Elon kaupi Twitter af því að hann mun koma á umbótum á því og hann er góður maður, en ég ætla halda mig á Truth,“ sagði Trump við FoxNews.

Inntur að því hvort Twitter verði nú í samkeppni við Truth Social sagði Trump það vera jákvæða þróun á markaðinum. Twitter væri þó ekki samkeppni fyrir hann.

Fyrrverandi forsetinn vildi ekki svara hvort hann hefði verið í sambandi við Musk nýverið en þeir hafa verið góðir vinir í gegnum árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert