Samtök blaðamanna víða um heiminn lýstu í dag áhyggjum sínum yfir yfirtöku Elon Musk, forstjóra Tesla, á samfélagsmiðlinum Twitter. Telja þau yfirtökuna setja fjölmiðlafrelsi á miðlinum í hættu.
Musk, sem bauðst til að kaupa fyrirtækið fyrir 44 milljarða bandaríkjadali, hefur áður sagst vera hlynntur algeru og afdráttarlausu tjáningarfrelsi.
Alþjóðasamtök blaðamanna (IFJ) og Evrópusamtök blaðamanna (EFJ) segja þó varhugavert að færa Musk þetta mikið vald yfir Twitter og að sterk afstaða hans til aukins tjáningarfrelsis geti leitt til þess að einelti og dreifing falsupplýsinga aukist á miðlinum, að því er féttaveita AFP greinir frá.
„Twitter er framlenging á skrifstofum blaðamanna. Það er á þessum miðli sem blaðamenn kynna störf sín, segja frá hugmyndum sínum eða finna heimildir. Þessum vettvangi verður að stjórna á réttan hátt, samhliða því að virða tjáningarfrelsi. Þetta er fín lína sem allir Twitter-notendur verða að gefa gaum,“ er haft eftir Anthony Bellanger, framkvæmdastjóra IFJ.
„Við höfum áhyggjur af því að fyrirætlanir Elon Musk með Twitter muni ógna öryggi blaðamanna og annarra notenda sem kjósa á láta nafn síns ekki getið á miðlinum,“ bætti hann við.