Rússar stöðva alla eldsneytissölu til Póllands og Búlgaríu

Aðalstöðvar Gazprom í Þýskalandi.
Aðalstöðvar Gazprom í Þýskalandi. AFP/John MACDOUGALL

Eldsneytisfyrirtækið Gazprom hefur ákveðið að frá og með miðvikudeginum muni það hætta að senda rússneskt eldsneyti til bæði Póllands og Búlgaríu. Enginn fyrirvari er á tilkynningu því hætt verður að senda eldsneyti strax á morgun, miðvikudag. Með þessu eru Rússar að rifta einhliða Yamal samningum við Pólland, en Pólverjar segjast munu leiða annarra leiða til að mæta þessu útspili Rússa. „Við munum sjá til þess að pólsk heimili finni ekki fyrir skorti á gasi,“ sagði umhverfisráðherra Póllands, Anna Moskwa á Twitter.

„Frá því stríðið hófst höfum við unnið að því og lýst því yfir að við séum sjálfstæð þegar kemur að innkaupum á eldsneyti frá Rússum.“

Hún bætti því að Pólland hefði nú í langan tíma verið á þeirri vegferð að minnka þörf þeirra fyrir viðskiptum við Rússa. Forsætisráðherra Mateusz Morawiecki sagði að nægt eldsneyti væri til í landinu, eða 76% af geymslubirgðum og nú væri Pólland tilbúið að horfa til annarra þjóða til að kaupa eldsneyti.

„Við höfum staðið við allar skuldbindingar“

„Bulgargaz fyrirtækið fékk tilkynningu dagsetta í dag, 26. apríl, þess efnis að Gazprom myndi hætta allri sölu á eldsneyti til fyrirtækisins frá og með morgundeginum, 27. apríl,“ var haft eftir efnahagsráðherranum, en Búlgaría er mjög háð eldsneyti frá Rússum.

„Við höfum staðið við allar okkar skuldbindingar gagnvart Gazprom, borgað alla reikninga í samræmi við gildandi samning, og farið í einu og öllu eftir gildandi samningi.“

 Rússar hafa varað viðskiptalönd sín við að ef þeir fengju ekki greiðslur í rúblum yrði sölu eldsneytis hætt. 

Árið 2020 voru 40% alls eldsneytis í Póllandi keypt frá Rússlandi. Nú horfa þeir til Noregs um næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert