Yfirvöld í Moskvu greindu frá því í dagð þau hefðu skipst á föngum við Bandaríkjamenn í dag. Trevor Reed, fyrrverandi hermanni sjóhers Bandaríkjanna, sem var handtekinn í Rússlandi fyrir að ráðast á lögreglu var skipt fyrir rússneska flugmanninn Konstantín Jarosjenkó sem var dæmdur fyrir fíkniefnasmygl í Bandaríkjunum.
Fangaskiptin eiga sér stað þegar mikil spenna er á milli ríkjanna vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
„Eftir langar samningaviðræður hefur bandaríska ríkisborgaranum Trevor Reed, sem var dæmdur í Rússlandi, verið skipt fyrir rússneska ríkisborgarann Konstantín Jarosjenkó sem var dæmdur í 20 ára fangelsi í Bandaríkjunum,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands, María Zakaróva á Telegram í dag.
Reed var ekið á Vnukovó-flugvöllinn í Moskvu í dag. Hann var handtekinn í Rússlandi árið 2020 og hlaut níu ára dóm fyrir að ráðast á lögreglu undir áhrifum. Við handtökuna var sagt að hann hefði gripið í handlegg annars lögreglumannsins í bílnum svo bíllinn sveigði af leið og einnig sagt að hann hefði þrykkt olnboganum í maga annars lögreglumanns í bílnum. Trevor neitaði öllum ásökunum og sagðist ekkert muna eftir þessu.
Jarosjenkó, sem skilað verður til Rússland fyrir Reed, var handtekinn í Líberíu 2010 fyrir eiturlyfjasmygl. Hann var færður til Bandaríkjanna þar sem hann hlaut 20 ára fangelsisdóm í september 2011.