Tilkynnt hefur verið um yfir átta þúsund tilfelli þar sem talið er að stríðsglæpir hafi verið framdir af völdum Rússa í Úkraínu. Frá þessu greindi úkraínski saksóknarinn Íryna Venediktóva í þýska sjónvarpinu í dag.
„Það eru í reynd 8.600 tilfelli sem snúast eingöngu um stríðsglæpi og önnur fjögur þúsund tilfelli sem eru tengd stríðsglæpum,“ sagði hún við fréttamann þýsku sjónvarpsstöðvarinnar Deutsche Welle.
Venediktóva hefur verið að rannsaka og safna saman sífellt vaxandi hóp tilfella meintra strípsglæpa frá því innrásin hófst 24. febrúar.
Nú eru meira en átta þúsund rannsakendur að störfum við að safna sönnunargögnum á vettvangi, bæði öryggisþjónustur, lögregla og erlendir rannsakendur.
Meintu stríðsglæpirnir sem þegar hafa verið skráðir eru m.a. morð á almennum borgurum, árásir á heimili almennra borgara, pyntingar og kynferðisglæpir á hernumdum svæðum Úkraínu sagði Venediktóva.
Rannsakendur hafa ekki haft neinn aðgang að hernumdum svæðum eins og Maríupol, Donetsk eða Luhansk, „en við höfum verið að taka viðtöl við fólk sem var flutt frá þessum svæðum,“ sagði hún. Einnig hafa þau reynt að nýta sér mögulegt fjarskiptasamband við íbúa þessara svæða.
„Við höfum nú trúverðugar upplýsingar þess efnis að rússneski herinn á Donetsk svæðinu hafi tekið Úkraínumenn af lífi sem reyndu að flýja, frekar en að taka þá í varðgæslu,“ sagði Beth Van Schaack, fulltrúi Bandaríkjanna í alþjóðlegum sakamálum, á fundi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. „Ef það reynist rétt er verið að ganga gegn grundvallar siðferðisgildum alþjóðlegra herlaga,“ bætti hún við.
Venediktóva hefur sjálf eytt síðustu tveimur mánuðum í að ferðast um Úkraínu til að safna upplýsingum. Í viðtali við AFP-fréttastofuna í mars lýsti hún Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem „helsta stríðsglæpamanni 21. aldarinnar.“
Þá var hún þegar byrjuð a rannsaka loftárásina á fæðingarspítalann og leikhúsið í Maríupol. Núna er verið að rannsaka mál tíu rússneskra hermanna í tengslum við stríðsglæpi í Bútsja þar sem fjöldi látinna fannst í fjöldagröfum og á götum úti eftir að Rússar yfirgáfu borgina.
Venediktóva sagði að málin yrðu sótt fyrir rétti í Úkraínu, en markmiðið væri að þau færu fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólinn.