Volodomír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Rússa niðurlægja Sameinuðu þjóðirnar.
Rússar skutu sprengjum að Kænugarði í kvöld á meðan aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, heimsótti borgina.
Sprengjurnar hæfðu tvö skotmörk, annað þeirra íbúðarblokk en að minnsta kosti þrír eru særðir.
„Í dag, strax í kjölfarið á samræðum okkar í Kænugarði, svifu rússneskar eldflaugar inn í borgina. Fimm eldflaugar. Það segir margt um tilraun rússneskra stjórnvalda til að niðurlægja Sameinuðu þjóðirnar og allt það sem stofnunin stendur fyrir,“ sagði Selenskí og bætti við að nauðsynlegt væri að svara fyrir árásina.
Saviano Abreu, talsmaður Antonio Guterres sagði að hópnum væri brugðið en þau væru í öruggu skjóli, án þess að segja hvar nákvæmlega.
„Þetta er stríðssvæði en það kom okkur í opna skjöldu hvað þetta gerist nálægt okkur," sagði Abreu.