Segja Úkraínumenn hafa skotið að Moldóvu

Skjaldarmerki Transnistríu.
Skjaldarmerki Transnistríu. AFP/Sergei Gapon

Innanríkisráðuneyti Transnistríu, landsvæðis innan Moldóvu þar sem rússneskir aðskilnaðarsinnar eru í meirihluta, segja dróna frá Úkraínu hafa skotið á þorp innan svæðisins sem hýsir lager fyrir rússneska herinn.

Þorpið Kolbasna er um tveimur kílómetrum frá landamærum Moldóvu við Úkraínu en þar eru geymd um tuttugu þúsund tonn af skotfærum frá tímum Sovétríkjanna.

Rússneskir hermenn standa vörð um hergögnin.

„Að morgni 27. apríl klukkan 08.45 var skotið á Kolbasna frá Úkraínu.“ segir á vef innanríkisráðuneytis Transnistríu en tekið er fram að engin meiðsl hafi orðið á fólki.

Rússar leiti sér að afsökunum

Utanríkisráðherra Moldóvu, Nicu Popescu, sagði að Transnistría hafi tilkynnt að mönnum á heppilegum aldri til að berjast yrði meinað að yfirgefa svæðið og sé það merki um að enn sé möguleiki á yfirvofandi hættu.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa sagt að Rússar vilji ýta undir óstöðugleika á landsvæðinu til að hafa afsökun til að grípa inn í með hernaðarlegum aðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert