Yfirvöld í Rússlandi hafa staðfest að rússneskar hersveitir skutu sprengjum að Kænugarði í gær á meðan Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, var í heimsókn í borginni. Að minnsta kosti einn lést í árásinni og um tíu særðust. Sprengjurnar hæfðu tvö skotmörk, þar af eina íbúðablokk.
„Björgunarmenn, sem halda enn leit sinni áfram og eru að fjarlægja rústir frá íbúðahúsnæði í Sjevtjenkivskí-hverfinu sem flugskeytin hæfðu í gær, hafa fundið lík manneskju sem var drepin,“ sagði borgarstjórinn í Kænugarði Vítalí Klitsjkó.
Rússneska varnarmálaráðuneytið staðfesti í dag í daglegri samantekt ráðuneytisins að Rússland hefði staðið að baki loftárásarinnar. Stóð þar að hánákvæm og langdræg vopn rússneska flughersins hafi verið notuð við verkið.
Kænugarður hefur ekki orðið fyrir sprengjuárásum síðan um miðjan apríl.
Saviano Abrey, talsmaður Guterres sagði í gær að hópnum væri brugðið en þau væru í öruggu skjóli, hann vildi þó vitaskuld ekki gefa upp staðsetningu þess.
„Þetta er stríðssvæði en það kom okkur í opna skjöldu hvað þetta gerðist nálægt okkur,“ sagði Abreu.