Gangast við árásinni í gær

Reykur stígur upp af svæðinu í Kænugarði sem Rússar skutu …
Reykur stígur upp af svæðinu í Kænugarði sem Rússar skutu sprengjum á í gær. AFP/Sergei Volskí

Yfirvöld í Rússlandi hafa staðfest að rússneskar hersveitir skutu sprengjum að Kænugarði í gær á meðan Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, var í heimsókn í borginni. Að minnsta kosti einn lést í árásinni og um tíu særðust. Sprengjurnar hæfðu tvö skotmörk, þar af eina íbúðablokk. 

„Björgunarmenn, sem halda enn leit sinni áfram og eru að fjarlægja rústir frá íbúðahúsnæði í Sjevtjenkivskí-hverfinu sem flugskeytin hæfðu í gær, hafa fundið lík manneskju sem var drepin,“ sagði borgarstjórinn í Kænugarði Vítalí Klitsjkó.

Rússneska varnarmálaráðuneytið staðfesti í dag í daglegri samantekt ráðuneytisins að Rússland hefði staðið að baki loftárásarinnar. Stóð þar að hánákvæm og langdræg vopn rússneska flughersins hafi verið notuð við verkið.

Kom þeim í opna skjöldu

Kænugarður hefur ekki orðið fyrir sprengjuárásum síðan um miðjan apríl.

Saviano Abrey, talsmaður Guterres sagði í gær að hópnum væri brugðið en þau væru í öruggu skjóli, hann vildi þó vitaskuld ekki gefa upp staðsetningu þess.

„Þetta er stríðssvæði en það kom okkur í opna skjöldu hvað þetta gerðist nálægt okkur,“ sagði Abreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert