Vilja flytja óbreytta borgara frá Maríupol í dag

Rússar hafa fullyrt að þeir hafi náð Maríupol undir sitt …
Rússar hafa fullyrt að þeir hafi náð Maríupol undir sitt vald, að undanskildu svæðinu við verksmiðjuna. AFP/Maxar Technologies

Áformað er að flytja óbreytta borgara frá Azovstal stálverinu í úkraínsku hafnarborginni Maríupol í dag, þar sem úkraínskar hersveitir og almenningur hafa haldið sig til og eru umkringdir af rússneskum hermönnum.

„Aðgerð til að flytja óbreytta borgara frá Azovstal verksmiðjunni er fyrirhuguð í dag,“ segir í yfirlýsingu frá úkraínska forsetaembættinu.

Í síðustu viku fullyrtu Rússar að þeir væru búnir að ná fullum yfirráðum yfir hafnarborginni að undanskildu iðnaðarsvæðinu við Azovstal stálverið, sem er nokkuð umfangsmikið.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur fyrirskipað að svæðið verði lokað af en hundruð óbreyttra borgara hafa leitað þar skjóls ásamt úkraínskum hermönnum, þar af fólk sem þarfnast læknisaðstoðar, samkvæmt yfirvöldum í Úkraínu.

Antonio Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði í þessari viku að Sameinuðu þjóðirnar væru að gera allt sem í sínu valdi stæði til að tryggja flutning almennra borgara frá „heimsenda“ ástandinu í Maríupol.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert