Voru Rússar mataðir á röngum upplýsingum?

Úkraínumenn við störf í dag þar sem flugskeytin komu niður …
Úkraínumenn við störf í dag þar sem flugskeytin komu niður í Kænugarði gær. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson fór í dag og myndaði eyðilegginguna sem flugskeyti Rússa skildu eftir sig í Kænugarði í Úkraínu í gærkvöldi en Óskar býr í borginni eins og fram hefur komið. 

„Sprengingarnar voru um átta leytið í gærkvöldi að okkar tíma og sú síðari var mjög öflug. Hún hristi húsið hjá okkur en ég bý um það bil 1,5 kílómetra frá staðnum þar sem flugskeytin lentu,“ sagði Óskar þegar mbl.is heyrði í honum hljóðið í dag. 

Hann segir að flugskeytin hafi lent í svipaðri fjarlægð frá aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ant­onio Guter­res, sem var á blaðamannafundi í borginni þegar sprengingarnar urðu. 

Óskar myndaði eyðilegginguna í dag.
Óskar myndaði eyðilegginguna í dag. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Óskar veltir fyrir sér hvernig Rússar velji skotmörk í ljósi þess að áður hafi verið skotið á sömu verksmiðju og í gær. 

„Þetta er í annað skiptið sem þeir hitta nákvæmlega þessa verksmiðju. Í einni af fyrstu árásunum á borgina, skömmu eftir að stríðið hófst, þá myndaði ég þetta sama hús fyrir Morgunblaðið. Sú sprenging var öflug en sprakk fyrir ofan húsið vegna þess að loftvarnir náðu að verjast henni að einhverju leyti. Rússar virðast halda að vopnaframleiðsla sé í húsinu en ég veit að svo er ekki. Það hefur ekkert verið að gerast í húsinu undanfarið en einhvern tíma voru vopn í þessari verksmiðju. Þetta er því furðulegt að mínu mati og líklega er byggt á röngum upplýsingum.“

Nokkur tími leið á milli árása á Kænugarð og Óskar neitar því ekki að sprengingarnar í gærkvöldi hafi komið mörgum íbúum borgarinnar á óvart. 

„Já þetta kom okkur alla vega nokkuð á óvart. Eftir árás á verslunarmiðstöð snemma í stríðinu hættu nánast sprengjur að lenda í miðbænum.  Loftvarnirnar hafa verið mjög sterkar í borginni og Rússarnir höfðu nánast gefist að senda flugskeyti hingað því það hefur yfirleitt bara kostað þá flugskeyti. Þau hafa yfirleitt verið skotin niður strax í ysta hringnum. Í loftvörnum í borginni eru þrír hringir. Fyrir utan borgina, í útjaðri hennar og miðri borginni. Í gær voru send fimm flugskeyti og þrjú þeirra voru skotin niður,“ sagði Óskar en telur að öflugustu flugskeyti Rússa hafi ekki verið til í miklu magni.

Óskar Hallgrímsson.
Óskar Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nýju flugskeytin sem Rússar voru að prófa, og lentu í Lviv um daginn, eru kölluð Hypersonic flugskeyti. Þau er varla hægt að skjóta niður því þau fara á fimmföldum hljóðhraða. Rússar hafa greinilega ekki átt mikið af því til. Þessi flugskeyti voru notuð nokkrum sinnum snemma í stríðinu en eftir það hefur ekki frést af því. Ef til vill hafa ekki verið framleiddar nema tíu eða svo fyrir stríðið. Sem betur því það er nánast ómögulegt að skjóta þau niður með þeirri tækni sem Úkraínumenn búa yfir,“ sagði Óskar Hallgrímsson í samtali við mbl.is í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert